Enski boltinn

Klopp: Væri algjört rugl að kaupa bara Þjóðverja

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp ætlar ekki bara að fá Þjóðverja til Liverpool.
Jürgen Klopp ætlar ekki bara að fá Þjóðverja til Liverpool. vísir/getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ætlar ekki bara að horfa til leikmanna í þýsku 1. deildinni þegar hann skellir sér á leikmannamarkaðinn í sumar.

Búist er við að Klopp gerir miklar breytingar á leikmannahópi Liverpool þar sem hann tók við liðinu á miðri leiktíð og fékk ekki að móta það eftir sínu höfði.

Mikið af leikmönnum úr þýsku 1. deildinni, meðal annars hans gamla félagi Dortmund, hafa verið orðaðir við Liverpool á undanförnum vikum og mánuðum. Það þýðir þó ekki að töluð verði þýska á Anfield næsta vetur.

„Við munum ekki kaupa leikmann því hann er Þjóðverji. Það væri algjört rugl,“ segir Klopp í viðtali við Sport 1.

„Við horfum ekki bara til Bundesligunnar. Við horfum út um allan heim til að byrja með. Það er samt mikilvægt að muna, að það skiptir engu máli hvaðan leikmaðurinn kemur, bara að hann sé rétti maðurinn fyrir okkur,“ segir Jürgen Klopp.

Leikmaður eins og Mario Götze hjá Bayern München, fyrrverandi lærisveinn Klopp hjá Dortmund, hefur verið sterklega orðaður við Liverpool en hann tryggði Þýskalandi heimsmeistaratitilinn með marki í framlengingu gegn Argentínu í úrslitaleik HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×