Enski boltinn

Leik lokið: Aston Villa - Chelsea 0-4 | Sjáðu fyrsta mark Pato fyrir Chelsea

Ensku meistararnir í Chelsea áttu ekki í nokkrum vandræðum með að leggja arfaslakt lið Aston Villa af velli á Villa Park í Birmingham. Lokatölur urðu 4-0.

Þetta byrjaði þó ekki gæfulega hjá Chelsea því Frakkinn Loic Remy þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla á 23. mínútu. Í hans stað kom Brasilíumaðurinn Alexandre Pato en hann var að leika sinn fyrsta leik í búningi Chelsea.

Ruben Loftus-Cheek kom Chelsea þó yfir aðeins þremur mínútum síðar og Alexandre Pato skoraði sitt fyrsta mark fyrir Chelsea á síðustu mínútu fyrri hálfleiks með marki úr vítaspyrnu.

Síðari hálfleikur var varla byrjaður þegar Pedro Rodriguez skoraði þriðja mark Chelsea og hann rak svo síðasta naglann í kistu Aston Villa þegar hann skoraði fjórða mark Chelsea á 59. mínútu.

Ekki batnaði staða Aston Villa þegar Alan Hutton fékk að líta sitt annað gula spjald á 85. mínútu og fékk að fara á undan samherjum sínum í sturtu.

Chelsea hefur ekki tapað í fimmtán deildarleikjum sínum undir stjórn Hollendingsins Guus Hiddink og liðið er búið að vinna fimm af síðustu sex útileikjum sínum. 

Remi Garde hætti sem knattspyrnustjóri Aston Villa í vikunni og ekki var að sjá að Eric Black hafi tekist að blása neinu lífi í andlaust lið Aston Villa fyrir þennan leik.

Chelsea fór með þessum sigri upp fyrir Liverpool í 9. sæti deildarinnar en Aston Villa situr sem fyrr í neðsta sæti deildarinnar, með aðeins 3 sigurleiki á þessari leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×