Enski boltinn

Yaya Touré fer frá City í sumar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Yaya Touré hefur unnið tvo Englandsmeistaratitla með City.
Yaya Touré hefur unnið tvo Englandsmeistaratitla með City. vísir/getty
Yaya Touré mun yfirgefa Manchester City í sumar samkvæmt umboðsmanni hans, en miðjumaðurinn öflugi hefur úr nóg af tilboðum að velja.

Touré á eitt ár eftir af samningi sínum við Manchester City og er búinn að bíða eftir nýjum í nokkurn tíma en ekkert hefur gerst.

„Við erum búnir að bíða of lengi. Manchester City lofaði samningi en ekkert er að gerast þannig Yaya fer í júní,“ segir Dimitri Seluk, umboðsmaður Touré, í viðtali við Sky Sports.

„Yaya er auðvitað vonsvikinn en hann er atvinnumaður og samningsbundinn City þannig hann heldur áfram að gera sitt besta fyrir liðið.“

Touré mun því ekki endurnýja kynnin við Pep Guardiola sem tekur við Manchester City í sumar. Guardiola þjálfaði Touré hjá Barcelona í tvö ár áður en Fílabeinsstrendingurinn var seldur til Englands árið 2010.

„Það hafa borist mörg tilboð í Yaya og við erum að fara yfir þau. Engin ákvörðun hefur samt verið tekin,“ segir Dimitri Seluk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×