Enski boltinn

Segir United betra en City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Það er hörð barátta fram undan um fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar og það síðasta sem veitir þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu. Hún stendur á milli Manchester-liðanna City og United.

Sem stendur er City með eins stigs forystu á United. City hefur þó unnið aðeins tvo af síðustu sjö deildarleikjum sínum en United fjóra af síðustu fimm.

Miðjumaðurinn Ander Herrera segir að United sé á réttri leið. „Manchester United á að vera í Meistaradeildinni á hverju ári,“ sagði Herrera. „Ég held að við höfum aðeins misst af einu tímabili í Meistaradeildinni á síðustu 25 eða 26 árum þannig að við viljum vera þar.“

„Sem leikmenn Manchester United ber okkur skylda til að berjast allt til loka og ég tel að við búum yfir gæðunum til að komast í Meistaradeildina.“

„Manchester City er með stærri hóp og mjög góða leikmenn en við getum veitt þeim samkeppni. Við sýndum í síðasta leik að við erum aðeins betri en þau. Við unnum City á útivelli og getum því verið bjartsýnir.“

United mætir næst Tottenham, sem er í öðru sæti deildarinnar. Herrera hefur ekki áhyggjur af leiknum.

„Við spilum venjulega vel gegn bestu liðunum. Erfiðustu leikirnir okkar hafa verið gegn öðrum liðum. En ég hef ekki áhyggjur þegar við mætum einu toppliða deildairnnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×