Enski boltinn

Kane orðinn markahæstur og Tottenham fimm stigum frá toppnum | Sjáðu mörkin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Harry Kane skorar fyrsta mark leiksins.
Harry Kane skorar fyrsta mark leiksins. vísir/getty
Tottenham vann öruggan sigur á nýliðum Bournemouth, 3-0, í 31. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag. Sigurinn var, eins og tölurnar gefa til kynna, aldrei í hættu.

Heimamenn komust yfir eftir aðeins 44 sekúndur þegar Harry Kane skoraði sitt 20. mark á leiktíðinni eftir fyrirgjöf frá hægri. Hann varð með markinu sá markahæsti í úrvalsdeildinni.

Kane bætti um betur fimmtán mínútum síðar þegar hann skoraði annað mark sitt og annað mark Tottenham, 2-0. Dele Alli gaf boltann inn á teiginn þar sem Kane kláraði færið sitt vel en samstarf þeirra hefur verið magnað á tímabilinu.

Kane er nú búinn að skora 21 mark í ensku úrvalsdeildinni og er á toppi markalistans, tveimur á undan Jamie Vardy og þremur mörkum á undan Romelu Lukaku sem er búinn að skora 18 mörk.

Vardy og Lukaku eru reyndar duglegri að búa til mörk fyrir aðra. Vardy er með 19 mörk og sex stoðsendingar og hefur því í heildina komið að 25 mörkum og Lukaku er með sex stoðsendingur og hefur því komið í heildina að 24 mörkum. Kane er aðeins með eina stoðsendingu en 21 mark. Ekki slæmt.

Veik von Bournemouth um að snúa gangi mála við í seinni hálfleik dó eftir aðeins sjö mínútur þegar Christian Eriksen kom Tottenham í 3-0 á 52. mínútu. Meira var ekki skorað í leiknum og sannfærandi sigur Tottenham í höfn.

Tottenham er eftir sigurinn með 61 stig í öðru sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir toppliði Leicester þegar bæði lið eiga sjö leiki eftir. Bournemouth er í þrettánda sæti með 38 stig, þrettán stigum frá falli.

Harry Kane kemur Tottenham í 1-0: Harry Kane kemur Tottenham í 2-0: Christian Eriksen kemur Tottenham í 3-0:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×