Enski boltinn

Saha: Martial er jafn hæfileikaríkur og Henry var á hans aldri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martial fagnar einu tólf marka sinna fyrir Manchester United.
Martial fagnar einu tólf marka sinna fyrir Manchester United. vísir/getty
Louis Saha hefur mikið álit á landa sínum, Anthony Martial sem leikur með Manchester United líkt og Saha gerði á sínum tíma.

Í viðtali við MUTV, sjónvarpsstöð Manchester United, gekk Saha svo langt að líkja Martial við Thierry Henry, markahæsta leikmann í sögu Arsenal og franska landsliðsins.

„Hann býr yfir sömu hæfileikum og Thierry Henry gerði á hans aldri,“ sagði Saha en Martial varð tvítugur í desember á síðasta ári.

Saha segir þó að Martial verði að vera skilvirkari sem leikmaður, líkt og Henry var.

„Thierry var mjög afgerandi leikmaður og það er sá þáttur sem Martial þarf að bæta,“ sagði Saha um Martial sem hefur skorað 12 mörk í 39 leikjum fyrir United á tímabilinu.

„Allt virðist svo auðvelt fyrir hann. Hann er sterkur, heldur boltanum vel, skorar mikilvæg mörk og höndlar leikjaálagið vel.

„Ég er líka hrifinn af því að hann er tilbúinn að bæta sig. Hann hlustar og reynir að koma hlutunum í verk,“ bætti Saha við.

Martial kom inn á sem varamaður og lagði upp sigurmarkið þegar Frakkar unnu Hollendinga 3-2 í vináttulandsleik á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×