Bíó og sjónvarp

Fréttaskýring: Svarti sandurinn kveikti áhuga Hollywood á Íslandi

Íslendingar ánægðir með íslenska náttúru í erlendum myndum en bransinn vill meira.

Birgir Olgeirsson skrifar
Fjöldi erlendra mynda hafa verið teknar upp á Íslandi á undaförnum árum en segja má að svarti sandurinn hafi orðið kveikjan að góðum samskiptum við Hollywood. Íslenska ríkið hefur varið fimm og hálfum milljarði í endurgreiðslur til kvikmyndagerðar en sú mynd sem hæsta endugreiðsluna hefur fengið er The Secret Life of Walter Mitty. Vísir

Erlent kvikmyndagerðarfólk hefur streymt til landsins undanfarin ár og er ekkert lát á komu þess. Tökur á nokkrum verkefnum eru ýmist fyrirhugaðar eða hafnar hér á landi í ár en á meðal verkefna má nefna Fast 8, Jackie Chan-myndina Kung Fu Yoga og aðra þáttaröðina af Fortitude. Einnig hafa verið sagðar fréttir af fyrirhuguðum tökum hér landi á áttundu Stjörnustríðsmyndinni, fimmtu Transformers-myndinni og Justice League. Þetta kvikmyndaævintýri sem á sér stað á Íslandi er ekki úr lausu lofti gripið.

Að baki er áralangt markaðsstarf þar sem Ísland hefur verið kynnt fyrir erlendum kvikmyndagerðarmönnum og hafa íslensk framleiðslufyrirtæki náð að sanna sig fyrir þeim og þar vegur færni og aukin reynsla starfsfólksins hvað þyngst. Á Íslandi er að finna eitt mesta kjörlendi fyrir kvikmyndatökur sem um getur; landslag sem kvikmyndagerðarmenn sækjast eftir við tökur á kvikmyndum á um 300 kílómetra kafla á Suðurlandi. Til að finna sambærilega tökustaði í Bandaríkjunum þyrfti að ferðast á milli Nýju-Mexíkó, Alaska, Havaí og Minnesota.

Ákvörðun yfirvalda um að koma á endurgreiðslukerfi 1999 hefur haft mikið um það segja að beina alþjóðlegum kvikmyndagerðarmönnum til Íslands og eru sögð mun fleiri tækifæri fyrir kvikmyndagerð hérlendis verði endurgreiðsla á framleiðslukostnaði kvikmynda úr ríkissjóði hækkuð úr 20 prósentum í 25 prósent. Eins og iðnaðarráðherra hefur nú lagt til.

Frá tökustað á Flags of Our Fathers í Sandvík árið 2005. Vísir

Mikilvæg tengsl mynduðust vegna svarta sandsins
Einar Hansen Tómasson fer fyrir verkefninu Film In Iceland sem hefur það að markmiði að kynna erlendum kvikmyndagerðarmönnum Ísland sem tökustað. Tólf ár eru síðan Einar hóf kynningu á Íslandi erlendis en segja má að verkefnið hafi tekið stakkaskiptum á einni ráðstefnu í Los Angeles þegar menn á vegum bandaríska leikstjórans Clint Eastwood voru að leita að tökustað fyrir kvikmynd hans Flags of Our Fathers, sem kom út árið 2006.

Sá sem fór fyrir hópnum heitir Kokayi Ampah en hann vatt sér upp að kynningarbás Íslendinganna, sem samanstóð af forsvarsmönnum frá Film In Iceland og íslenskra þjónustufyrirtækja, og spurði hvort svartar strendur væru á Íslandi? Ekki stóð á svörum frá Íslendingunum og fljótlega í kjölfarið var Eastwood mættur með tökulið sitt til Íslands sumarið 2005 þar sem nær þriðjungur myndarinnar var tekinn upp í Sandvík á Reykjanesi.

Tengslin sem mynduðust við Kokayi áttu eftir að reynast heilladrjúg. „Hann hefur hjálpað mér gríðarlega mikið að tengjast inn í heim þeirra sem leita að tökustöðum. Það hafa komið nokkur verkefni í gegnum þau tengsl í gegnum tíðina,“ segir Einar.

Værum ekki skoðuð án endurgreiðslu
Árið 1999 voru samþykkt lög á Alþingi um 20 prósenta endurgreiðslu frá íslenska ríkinu til kvikmynda- sjónvarpsgerðar hér á landi. Samkvæmt þeim er heimilt að endurgreiða úr ríkissjóði hlutfall af framleiðslukostnaði sem til fellur við framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi, en það var Finnur Ingólfsson, þáverandi iðnaðarráðherra, sem mælti fyrir málinu á þingi.

Einar Hansen Tómasson fer fyrir verkefninu Film In Iceland.

Meðal hlutverka Film In Iceland er að kynna þessa endurgreiðslu erlendis en Einar segir hana vera frumforsendu þess að menn horfi til Íslands sem heppilegs tökustaðs. Lögin falla úr gildi 31. desember næstkomandi. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lagði fram frumvarp til laga um endurgreiðslur á ríkisstjórnarfundi í dag þar sem gildistíminn verður framlengdur og hlutfallið hækkað. Hún tilkynnti á iðnaðarþingi í gær að hún vildi hækka endurgreiðsluna úr 20 í 25 prósent.

„Það er bara þannig að ef við værum ekki með endurgreiðslukerfi þá kæmum við ekki til greina. Svo þegar við erum með kerfi þá hafa þau áhuga á að skoða okkur, þá skiptir máli að þær staðsetningar sem við höfum upp á að bjóða passi inn í handritið sem þau eru með í vinnslu. Svo þurfa innviðirnir að vera til staðar, þá á ég við að þjónustufyrirtækin hafi burði til að þjónusta þessi verkefni,“ segir Einar.

Trúin til staðar
Hann segir margljóst að þeir framleiðendur og leikstjórar sem hafa komið hingað til lands séu afar ánægðir með þau gæði sem íslensk framleiðslufyrirtæki hafa veitt í gegnum árin.

„Þannig að þjónustufyrirtækin hafa verið að gera mjög vel. Það er ákveðið traust komið á Íslandi, þannig að menn eru ekki taka áhættu með því að fara til Íslands. Nú vita menn að það er öruggt að koma til Íslands, þú færð þjónustuna sem þú þarft, þú getur skotið og innviðirnir eru sterkir,“ segir Einar.

Frá Reynisfjöru en þar voru atriði fyrir myndina Noah tekin upp. Vísir

Töluverð breyting hefur orðið á hans starfi þessi tólf ár sem hann hefur unnið við að kynna Ísland sem tökustað. Í upphafi snerist vinnan hans aðallega um að sannfæra kvikmyndagerðarmenn um að Íslendingar væru fullfærir um að taka við stórum verkefnum. Í dag séu tengslin og traustið orðið annað og snúast fundirnir margir hverjir um að fara yfir verkefni sem gætu hugsanlega verið kvikmynduð á Íslandi.

„Þessi trú, hún er komin. Það er það sem skiptir svo miklu máli. Nú skiptir máli að vera samkeppnishæfur og halda því áfram,“ segir Einar. Hann segir ekkert standa í vegi fyrir því að Ísland geti áfram verið vinsæll tökustaður á komandi árum.

Einnig hjálpar til að vel gengur hjá kvikmyndaverunum í Bretlandi að fá til sín verkefni sökum góðra ívilnanna. Það gerir það að verkum að afar stutt er að koma til Íslands þar sem hægt er að fá ákjósanlega tökustaði undir berum himni.

Hefur dagsbirtan á sumrin einnig verið nefnd sem frábær ástæða til að taka á Íslandi. „Þú færð það sem við köllum „töfrastundina“ þegar sólin er lágt á lofti og þú færð þessa fallegu birtu sem varir í 7-8 klukkustundir. Frá sjónarhóli kvikmyndagerðarmannsins er það ótrúlegt tækifæri til að fá þessa frábæru birtu í margar klukkustundir,“ sagði Joseph Kosinski, leikstjóri Oblivion, um tökur á myndinni sem fóru fram hér á landi árið 2012.

Viðtalið við Kosinski má sjá eftir um þrettán og hálfa mínútu í myndbandinu að neðan.

Suðurlandið kjörlendi
Einar segir betra að markaðssetja Suðurlandið sem tökustað en önnur svæði þar sem er að finna afar mikla fjölbreytni í landslagi á skammri vegalengd í alþjóðlegu samhengi, auk þess sem þar hefur byggst upp reynsla og sterkir innviðir til að taka á móti stóru verkefnunum. Það sé þó að breytast.

„Sem dæmi má nefna að ef þú staðsetur þig á Suðurlandinu, þetta er bara þriggja tíma hringur. Þá ertu komin inn á hálendið með svörtu eyðimerkurnar, skúlptúra úr hrauni, stóra fossa og vötn og ár. Græna dali og kornakra á sumum stöðum. Svo ertu komin í Jökulsárlónið og Fjallsárlónið. Sprengisandsleiðin. Ég segi þessum aðilum að þeir geta fengið allar þessar staðsetningar í Bandaríkjunum, en það þarf að fljúga til Nýju-Mexíkó, Havaí, Alaska og Minnesota, bara til að fá þetta. Það er okkar styrkur að geta gert allt þetta hér á skömmum tíma með því að hreyfa sig lítið, það sparar einnig mikinn pening,“ segir Einar.Gerist ekki af sjálfu sér
Vinsældir Íslands fyrir kvikmyndatökur hafa því ekki alveg sprottið af sjálfu sér. Endurgreiðslur og frammistaða íslenskra framleiðslufyrirtækja hefur þar allt að segja að sögn Einars.

„Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Þetta er bara samstarf þessa verkefnis sem ég er að sinna og þessarar þjónustu fyrirtækjanna sem setja gríðarmikla vinnu í að kynna sig erlendis og í sameiningu höfum við verið að vinna að þessu. Ég er bara einn hluti í þessari keðju. Ef fyrirtækin væru ekki að standa sig svona vel þá væri ekki borið þetta traust til þeirra. Íslenska starfsfólkið sem er að vinna verkefnin, fólkið á gólfinu, er okkar besta markaðssetning fyrir utan ívilnunina.“

The Secret Life of Walter Mitty er sú kvikmynd sem hefur fengið hæstu endurgreiðsluna úr ríkissjóði. Vísir/YouTube

Fimm og hálfur milljarður í endurgreiðslur
Í fyrra námu endurgreiðslur úr ríkissjóði vegna kvikmyndagerðar hér á landi 793 milljónum króna. Þessar tölur eru aðgengilegar á vef Kvikmyndamiðstöðvar þar sem sjá má tölur frá árunum 2001 til 2015. Á þeim árum hefur ríkissjóður varið um fimm og hálfum milljarði króna í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar.

Þetta er talið skila sér í aukinni landkynningu en könnun var gerð á meðal erlendra ferðamanna árið 2014 þar sem þeir voru spurðir hvaðan hugmyndin kom að ferðast til Íslands. 14,3 prósent svarenda sögðu alþjóðlegt myndrænt efni  (bíó­myndir/heimildar­myndir/sjón­varps­þættir/tón­listar­mynd­bönd) en 5,8 prósent sögðu íslenskar kvikmyndir. Er ferðaþjónustan orðin ein stærsta útflutningsgrein Íslands sem skapar mikinn gjaldeyri og því áhrifin frá kvikmyndageiranum töluverð. 

Aðeins er hægt að skoða upphæðir endurgreiðslu frá árunum 2001 til 2011 en hins vegar er hægt að sjá hvaða verkefni hafa fengið endurgreiðslu úr ríkissjóði á árunum 2012 til 2015. 

Séu þær tölur skoðaðar kemur í ljós að:
Innlend framleiðsla hefur fengið 1,3 milljarða á þessum árum
Erlend framleiðsla tvo milljarða
Samframleiðsla 435 milljónir króna.
86 milljónir hafa farið í heimildarmyndir
Tveir milljarðar í kvikmyndir
1,7 milljarðar í sjónvarpsefni

Þau tíu verkefni sem hafa fengið mest endurgreitt:
Latibær – fjórða sería – 288 milljónir árið 2014
Latibær 281 milljónir árið 2013
The Secret Life of Walter Mitty 275 milljónir króna árið 2014
Oblivion 192 milljónir króna árið 2013
Fortitude B 161 milljón króna árið 2014
Þór – Hetjur Valhallar 161 milljón króna árið 2012
Interstellar 152 milljónir króna árið 2014
Prometheus 147 milljónir króna árið 2012
Noah 137 milljónir króna árið 2015
Dead Snow 2 129 milljónir króna árið 2014

*Lista yfir öll verkefnin má sjá neðst í fréttinni. 

Grafið hér fyrir neðan sýnir endurgreiðslur úr ríkissjóði eftir árum. Upphæðirnar eru í milljónum króna. 

Baltasar Kormákur vill taka næsta skref í kvikmyndagerð á Íslandi. Vísir/Anton

„Miklu meiri atvinnumenn í þessu“
Leikstjórinn Baltasar Kormákur hefur einnig verið iðinn við að hvetja erlent kvikmyndagerðarfólk til að taka upp á Íslandi auk þess sem hann sjálfur hefur komið með stór verkefni hingað til lands.

Hann segir góðan árangur hafa náðst í þessum málum undanfarin ár en hann vill að Íslendingar taki næsta skref í þessum bransa með því að hækka endurgreiðsluna úr ríkissjóði upp í 25 prósent. Með þeirri hækkun gætu Íslendingar fært sig úr þjónustuhlutverkinu og farið yfir á framleiðslustig.

Baltasar tekur undir orð Einars um að gott orð fari af íslensku kvikmyndagerðarfólki ytra. Starfsfólkið sem fer á milli íslensku fyrirtækjanna sé orðið mjög fært og reynslumikið og nýtur íslensk kvikmyndagerð góðs af því. 

„Það er miklu fleira fólk farið að vinna við þetta og orðið miklu þjálfaðra. Þegar ég var að byrja hérna þá var aðallega verið að taka upp á sumrin og einstaka sinnum var eitt og eitt verkefni sem slæddist inn um veturinn. Þetta var eiginlega bara sumarhobbý. Núna er þetta orðin vinna allt árið í kring. Þegar við vorum að gera Ófærð vorum við í tökum í hálft ár. Þetta eru orðnir miklu meiri atvinnumenn í þessu,“ segir Baltasar.

Úr sjöundu Stjörnustríðsmyndinni, The Force Awakens, sem var tekin upp að hluta hér á landi. Vísir/YouTube

Stærri tökur þýða meiri verðmæti
Við gerð stórra kvikmynda er oftast nær notast við tvö tökuteymi: A og B. Í A-teymi eru aðalleikarar og leikstjóri myndar með í för í flestum tilfellum, og svo hins vegar B-teymið þar sem aðallega er um að ræða tæknifólk við tökur á atriðum þar sem aðalleikara er ekki þörf. Í flestum tilfellum kemur seinna tökuteymið hingað til lands en Baltasar segir að með því að hækka endurgreiðsluna í 25 prósent sé ekki aðeins hægt að fjölga verkefnum heldur einnig hægt að fá hingað til lands stærri verkefni.

Þegar listinn yfir þær myndir sem hafa fengið hæstu endurgreiðslurnar er skoðaður kemur í ljós að þær myndir sem eru þar, Secret Life of Walter Mitty, Oblivion, Interstellar, Prometheus og Noah, eiga það sammerkt að aðaltökuteymi þeirra mættu hingað til lands. Því stærri sem tökurnar eru, því meiri verðmæti verða til. 

Eins og frægt er orðið voru teknar upp landslagssenur fyrir sjöundu Stjörnustríðsmyndina, The Force Awakens, hér á landi en endurgreiðslur úr ríkissjóði til þeirra myndar numu 54 milljónum króna í fyrra. Þá fékk stórmyndin Captain America: Winter Soldier, fimm milljónir króna endurgreiddar úr ríkissjóði í fyrra en það sama á við um þá mynd og sjöundu Stjörnustríðsmyndina, tökuteymi var sent hingað til lands en aðalleikarar komu ekki.

Ísland skartar sínu fegursta í nýjustu stiklunni úr Captain America: Civil War sem verður frumsýnd síðar í ár. Baltasar segir ánægjulegt að sjá íslensk fjöll í erlendum myndum en fólk í kvikmyndagerð hér á landi vilji sjá meira. Vísir/YouTube

Bransinn vill sjá meira en falleg fjöll
Baltasar segir stjórnvöld gera sér grein fyrir að 20 prósenta endurgreiðsla sé lág. Hækkun upp í 25 prósent myndi gera það að verkum að Íslendingar standa jafnfætis Bretunum sem eru með það hlutfall og þannig er hægt að fá talsvert fleiri og meiri verkefni til Íslands. Baltasar segir Breta vera búna að éta upp Hollywood og njóti Íslendingar góðs af því sökum þess hve stutt er á milli landanna. Sjöunda Stjörnustríðsmyndin var tekin upp í Pinewood kvikmyndaverinu í Lundúnum og var tökulið meðal annars sent hingað til lands til að taka upp landslagssenur fyrir myndina

„Við erum rosalega ánægð með fjöllin okkar í erlendum myndum en þeir sem starfa í kvikmyndagerð vilja sjá meira,“ segir Baltasar. Ásamt því að reka RVK Studios rekur Baltasar einnig eftirvinnslufyrirtækið RVX sem leiddi eftirvinnsluna á kvikmynd hans Everest og hefur komið að brellugerð fyrir stórar myndir úti í heimi.

Eftirvinnslubransinn mikilvægur
Hann segir eftirvinnslubransann ekki síður mikilvægan og hægt sé að fá mun meira af slíkri vinnu til Íslands. „Tölvulæsi á Íslandi er svo hátt og það yrði svo fljótlegt að byggja upp eftirvinnslu þekkingu á hér á landi. Það er svo auðvelt að ná í hæfileikaríkt fólk. En það þarf að koma með verkefni til þess. Þú ert ekkert að gera eftirvinnslu á Íslandi nema það sé hagkvæmt. Þetta snýst um að við séum samkeppnisfær við löndin í kringum okkur.“

Baltasar Kormákur og stjórnendur RVK Studios óskuðu síðasta sumar eftir viðræðum um kaup á hluta af gömlu Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi og úthlutun lóðar við húsið með það fyrir augum að byggja upp aðstöðu fyrir kvikmyndastarfsemi. Vísir/GVA

Draumurinn um kvikmyndaver í Gufunesi
Hann segir að með hækkuninni myndu einnig aukast líkur á að hægt yrði auka stúdíó-vinnu til muna á Íslandi. Draumur Baltasars er að reisa kvikmyndaver í Gufunesi  en borgarráð samþykkti í nóvember síðastliðnum tillögu borgarstjóra um að ganga til viðræðna við RVK Studios um alhliða kvikmyndaver sem verður hluti af framtíðarmynd Gufuness og ein af forsendum í skipulagssamkeppni sem efnt verður til.

„Ég hef verið að ræða við borgaryfirvöld. Það er annað skref í því að við getum tekið meira upp hér á landi. Eins og með Víkingamyndina, sem menn eru kannski orðnir leiðir á að heyra mig tala um, en það stendur til að gera hana og Universal er með hana og hefur áhuga á að koma henni í gang sem fyrst,“ segir Baltasar Kormákur en ef hún verður að veruleika munu tökur á henni fara fram hér á landi og yrði þá um risaverkefni að ræða.

B-teymi í Fast 8
Sem dæmi um verkefni þar sem B-teymið mætir til landsins nefnir Baltasar Kormákur myndina Fast 8, áttundu myndina í Fast & Furious-seríunni, en hann afþakkaði boð um leikstýra þeirri mynd. „Þar senda þeir bíla og það eru tekin upp hasaratriði hér á landi. Svo fara menn í stúdíó ytra með leikarana þar sem þeir sitja í bílunum og það er látið líta út fyrir að þeir séu í þessu umhverfi,“ segir Baltasar og tekur fram að það sé ekkert út á það að setja en hann vilji sjá þróunina í þá átt að hægt sé ná verkefnum stórum verkefnum hingað til lands þar sem íslensk fyrirtæki koma að framleiðslunni.

„Eins og okkar fyrirtæki er að gera. Við erum að framleiða þetta með Universal og Working Title. Við erum að gera þáttaseríu sem er að fara um allan heiminn eins og Ófærð og verið með fleira sem við erum að vinna að,“ segir Baltasar.

Íslendingar geta orðið stærri þátttakendur
Eitt af fyrirhuguðum verkefnum Baltasars er sjónvarpssería byggð á Eve-online tölvuleiknum frá íslenska fyrirtækinu CCP.

„Það verður alþjóðleg sjónvarpssería ef að líkum lætur og þá verður hún framleidd á Íslandi, mjög líklega á ensku, þó íslenskan reynist okkur ágætlega í Ófærð,  og gerð fyrir sjónvarpsstöðvar erlendis og heima líka. Þá er ég að tala um að ég hef trú á að við þurfum ekki bara að vera í „service“-bransanum, við getum líka framleitt í framtíðin þessi stóru verkefni, verið aðilar að framleiðslunni. Þá er ég ekki bara að tala um kvikmyndir heldur að vinna beint fyrir þessa fjármagnsaðila sem eru að gera þetta, eða stúdíóin. Það er stóri draumurinn minn. Hitt finnst mér svona verða til langframa ekki eins spennandi,“ segir Baltasar sem minnir á að sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðurinn sé nú þegar stór atvinnugrein hér á landi en algerlega ástæðulaust sé að ætla að Íslendingar geti ekki látið töluvert meira að sér kveða í þessum geira.​

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir öll þau 132 verkefni sem hafa fengið endurgreiðslu úr ríkissjóði á árunum 2012 til 2015. 


Tengdar fréttir

Bakvið tjöldin í Íslandsmyndbandi Justin Bieber - Myndband

„Fyrir þá sem hafa verið að velta því fyrir sér þá tók ég upp myndbandið hans Justin Bieber,“ segir Rory Kramer, góðvinur Bieber, sem var með honum hér á landi á dögunum. Hann birtir einskonar bakvið tjöldin myndband á Instagram-síðu sinni.

Walter Mitty ómetanleg landkynning fyrir Ísland

Kvikmyndin The secret life of Walter Mitty var á dögunum forsýnd hér á landi en bandaríski leikarinn Ben Stiller, fer með aðalhlutverk í myndinni og leikstýrir henni einnig.

Tom Cruise fílar Ísland í botn

,,Hefur einhver komið til Íslands hérna?" spyr Tom Cruise meðal annars gesti í bandarískum spjallþætti þar sem hann sat fyrir svörum hjá Jimmy Kimmel þar sem Hollywoodstjarnan talar mjög fallega um Ísland það sem hann upplifði hér á landi þegar hann vann við tökur á myndinni Oblivion eins og sjá má í þessu myndskeiði:

Aronofsky hélt ekki vatni yfir hæfileikum Íslendinga

Ben Stiller var gestur Kastljóss sjónvarpsins í kvöld þar sem hann fjallaði um mynd sína The secret life of Walter Mitty og dvöl sína á Íslandi. Stiller er hrifinn af landinu og segir það hafa upp á margt að bjóða. Til að mynda verði Ísland ekki bara Ísland í mynd Stillers heldur Grænland og Himalaya fjöllin að auki.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.