Enski boltinn

Benitez gerði þriggja ára samning

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Benitez er tekinn við Newcastle.
Benitez er tekinn við Newcastle. Vísir/Getty
Rafael Benitez hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Newcastle. Félagið staðfesti það nú síðdegis.

Benitez tekur við starfinu af Steve McClaren sem var rekinn nú fyrr í morgun. Newcastle er í næstneðsta sæti deildarinnar en hefur nú tíu leiki til að bjarga sæti sínu í deildinni.

Benitez skrifaði undir þriggja ára samning við Newcastle en samkvæmt heimildum Sky Sports getur hann rift samningi sínum við félagið ef það fellur úr ensku úrvalsdeildinni í vor.

Það verða þó nokkrar breytingar á þjálfara liði félagsins en þeir Fabio Pecchia, Francisco de Miguel Moreno og Antonio Gomez Perez fylgja allir Benitez til Newcastle.

Benitez verður áttundi stjóri Newcastle á aðeins tólf árum en hann var síðast á mála hjá Real Madrid. Hann hefur einnig stýrt Liverpool og Chelsea á ferli sínum.


Tengdar fréttir

Búið að reka McClaren

Steve McClaren er farinn frá Newcastle. Rafa Benitez er sterklega orðaður við starfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×