Enski boltinn

Farsa-ummæli Wenger forsíðuefni ensku blaðanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger var ekkert í alltof góðu skapi í gær.
Arsene Wenger var ekkert í alltof góðu skapi í gær. Vísir/Getty
Arsene Wenger er orðinn afar pirraður á umræðunni um framtíð sína hjá félaginu og kallaði hana farsa í viðtölum eftir tapið á móti Watford í gær.

Þetta var fjórða tap Arsenal í síðustu sex leikjum og í fyrsta sinn frá árinu 2002 sem liðið tapar þremur heimaleikjum í röð. Þetta er því versta heimavallartaphrina félagsins í fjórtán ár en franski stjórinn er á því að allar vangaveltur um framtíð sína eigi ekki rétt á sér.

Á síðustu vikum hefur Arsenal  dottið út úr enska bikarnum, komið sér í vonlausa stöðu í Meistaradeildinni (2-0 undir á móti Barcelona eftir heimaleikinn) og er nú átta stigum á eftir toppliði Leicester í ensku úrvalsdeildinni.

„Það sem er í gangi núna er mjög, mjög erfitt fyrir leikmennina að sætta sig við. Dæmið okkur samt í lok tímabilsins," sagði Arsene Wenger.

„Nú er á enda löng sigurganga í enska bikarnum og það er leiðinlegt en við viljum einbeita okkur að næsta leik sem er alltaf mikil áskorun. Við erum samt alltaf í miðpunkti einhvers leikrits," sagði Wenger.

„Þetta leikrit er samt að breytast í farsa. Við töpuðum leik. Arsenal hefur tapað áður og við mun tapa leik aftur í framtíðinni. Við ætlum að standa saman, komast í gegnum þetta og undirbúa okkur fyrir næsta leik með fulla trú á okkur sjálfum," sagði Wenger.

„Stuðningsmennirnir standa á bak við félagið og við viljum berjast fyrir hverjum leik til loka tímabilsins. Þetta snýst ekkert um sjálfstraust. Auðvitað er liðið mitt með nægjanlegt sjálfstraust," sagði Wenger.

Wenger skilur því ekki umræðunni um framtíð sína en ensku blöðin skilja aftur á móti ekki í franska stjóranum og viðbrögð hans voru forsíðuefni ensku blaðanna í morgun eins og sjá má hér fyrir neðan.

Independent og Daily Star.
Mirror og The Sun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×