Enski boltinn

Webb um Fellaini: Hann er fauti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Webb vildi sjá rauðan lit á þessu spjaldi.
Webb vildi sjá rauðan lit á þessu spjaldi. Vísir/Getty
Howard Webb, fyrrum dómari í ensku úrvalsdeildinni, er ekki ánægður með framferði Marouane Fellaini, leikmanns Manchester United, í leiknum gegn Liverpool í gær.

Liverpool komst í gær áfram í 8-liða úrslit Evrópudeildar UEFA með 3-1 samanlögðum sigri á Manchester United eftir 1-1 jafntefli liðanna á Old Trafford.

Í gær var Fellaini með olnbogann hátt á lofti og fékk króatíski varnarmaðurinn Dejan Lovren að kenna á því. Svipað atvik átti sér í fyrri leik liðanna er Fellaini sveiflaði höndinni að Emre Can.

Sjá einnig: Liverpool áfram eftir jafntefli á Old Trafford | Sjáðu mörkin

„Það er eitt að láta til sín taka í leiknum en svo allt annað að vera fauti á vellinum,“ sagði Webb sem starfar nú sem sérfræðingur á BT Sport sjónvarpsstöðinni í Bretlandi.

„Hann [Fellaini] virðist ekki geta spilað án þess að sveifla olnboganum út um allt. Ég tel að það hefði átt að dæma hann í bann fyrir atvikið í fyrri leiknum en UEFA tók það aldrei til skoðunar.“

Webb segir að það sé enginn vafi á því að atvikið í leiknum í gær verðskulaði rautt spjald. „Vissulega er Lovren að halda honum en er það afsökun fyrir því að gefa honum olnbogaskot? Auðvitað ekki.“

Sjá einnig: Sætisbök á flugi og hnefar á lofti á Old Trafford í gær

Webb segir enn fremur að það fari nú ákveðið orðspor af Fellaini innan dómarastéttarinnar.

„Við vitum um hvað hann snýst. Við höfum séð þetta allan hans feril en nú virðist sem svo að þetta sé að versna hjá honum. Hann virðist ekki komast í gegnum leik án þess að láta svona. Það hefði átt að reka hann út af, svo einfalt er það.“


Tengdar fréttir

Megum ekki missa okkur

Miðjumaður Man. Utd, Ander Herrera, segir að Man. Utd verði að hafa þolinmæðina að leiðarljósi í leiknum gegn Liverpool í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×