Enski boltinn

Van Gaal segir gengi United undir væntingum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Van Gaal reiður.
Van Gaal reiður. vísir/getty
Louis van Gaal, stjóri Manchester United, segir að United hafi spilað undir væntingum í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Hann segir að það sé að duga eða drepast í grannaslaginum á morgun gegn Manchester City.

„Ég held það. Núna erum við fjórum stigum á eftir þeim svo þú verður að vinna annars verður bilið bara meira og meira og leikjunum sem eftir eru fækkar,” sagði Van Gaal við fjölmiðlamenn á blaðamannafundi fyrir grannaslaginn.

„Ég held ef við töpum að þá verði bilið orðið sjö stig og við eigum eftir að spila átta leiki. Þetta er enn möguleiki, en þetta er erfitt því West Ham er einnig fyrir ofan okkur - þetta er ekki bara City.”

Hollenski stjórinn skaut einnig aðeins á pressuna, en hann hefur verið duglegur við að láta fjölmiðla heyra það undanfarið.

„Ég held að í fjóra mánuði hafa fjölmiðlar skrifað um að það ætti að reka mig, eða ekki? Fjórir mánuðir nú þegar. Finnst þér það lógískt eða eðlilegt?” spurði Van Gaal.

„Væntingarnar gætu verið of miklar. Við vildum ná þremur efstu sætunum af því við vildum gera aðeins betur en á síðasta tímabili,” sagði Van Gaal og aðspurður hvort frammistaða United hafi verið vonbrigði á tímabilinu svaraði sá hollenski:

„Já, en þá verðuru að skoða kringumstæðurnar, hvernig ég hef þurft að vinna. Ég er aldrei með þá tilfinningu að ég sé undir pressu. Ég geri það sem ég þarf að gera,” sagði Louis van Gaal að lokum.

Leikur Manchester City og Manchester United verður að sjálfsögðu í þráðbeinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2/HD. Leikurinn hefst klukkan 16.00 á sunnudag, en útsending hefst tíu mínútum fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×