Innlent

„BDSM á Íslandi hefur ekki 'sameinast' Samtökunum '78“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Stjórn Samtakanna '78 hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna aðildar BDSM á Íslandi að samtökunum.
Stjórn Samtakanna '78 hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna aðildar BDSM á Íslandi að samtökunum. Vísir/Vilhelm
Stjórn Samtakanna ’78 segir að fréttir um klofning í samtökunum séu stórlega ýktar. „Í dag hafa verið bæði skráningar í félagið og úr því en hvorugur hópurinn er fjölmennur miðað við heildarfjölda félaga sem telur um 1.100 manns,“ segir í yfirlýsingu frá stjórn félagsins.

Í yfirlýsingunni er farið yfir aðdraganda þess að BDSM Ísland fékk aðild að samtökunum en samtökin eru enn sjálfstæð. Þá segir stjórnin að hvorki núverandi né fyrrverandi stjórn hafi tekið afstöðu í málinu, það hafi verið í höndum félagsmanna að taka afstöðu. 

BDSM á Íslandi hefur ekki ‘sameinast’ Samtökunum ‘78. Samtökin ‘78 eru regnhlífarsamtök ólíkra hinsegin félaga, þótt félagsaðild hafi verið og sé enn bundin við einstaklingsaðild. BDSM á Íslandi verður nú í hópi 8 annarra félaga,“ segir stjórnin.

Málið hófst með umsókn BDSM samtakanna um aðild að Samtökunum ’78 en stjórnin segir að strax hafi verið ljóst að málið yrði umdeilt á meðal félagsmanna. 

„ Stjórninni var fullljóst að umsóknin kynni að reynast umdeild meðal félagsfólk, að margt félagsfólk hefði spurningar um hvað möguleg aðild BDSM á Íslandi að samtökunum þýddi og hefði hugsanlega áhyggjur af ímynd félagsins,“ segir í yfirlýsingunni.

„Bæði þáverandi og núverandi stjórnir félagsins skilja vel þessar áhyggjur fólks og hafa reynt að koma til móts við félaga með því að efna til upplýsinga- og umræðufunda,“ segir stjórnin en bætir við að töluverður hluti félagsfólks hafi stutt umsókn BDSM á Íslandi.

Til stendur að halda félagsfund í samtökunum til að fara betur yfir málið en stjórnin óskar eftir að fá svigrúm til að bregðast frekar við málinu en gert er í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.