Enski boltinn

Eboué dreymdi um að komast aftur í ensku úrvalsdeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emmanuel Eboué og Arsene Wenger á sínum tíma.
Emmanuel Eboué og Arsene Wenger á sínum tíma. Vísir/Getty
Emmanuel Eboué er aftur orðinn leikmaður í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir fimm ára fjarveru.

Emmanuel Eboué kom til Sunderland á frjálsri sölu á dögunum en hann verður 33 ára gamall í sumar. Þessi fyrrum leikmaður Arsenal hefur spilað í Tyrklandi frá árinu 2011 en hann lék með Arsenal í sex ár frá 2005 til 2011.

„Mig dreymdi um að komast aftur í ensku úrvalsdeildina," sagði hægri bakvörðurinn við BBC. Tyrkneska liðið Galatasaray keypti hann á 3,5 milljónir evra í ágúst 2011 eða tæpu ár eftir að Eboué hafði skrifað undir langtímasamning við Arsenal.

Emmanuel Eboué gerði fjögurra ára samning við Galatasaray og spilaði þrjú tímabil. Hann fékk ekki að spila með aðalliðinu í fyrra og fékk skiljanlega ekki nýjan samning síðasta sumar.

„Við erum með gott lið en við verðum að spila af krafti. Við munum berjast fyrir því að hækka okkur í töflunni," sagði Eboué.

Sunderland er eins og er í 17. sæti, síðasta örugga sætinu í deildinni og er jafnframt aðeins einu stigi frá fallsæti.

„Ég hef þekkt til hjá klúbbnum í langan tíma og þá þekki ég líka vel menn eins og Jermain (Defoe), John (O'Shea) og Catts (Lee Cattermole) auk frönsku leikmannanna. Þetta er eins og fjölskyldan mín," sagði Emmanuel Eboué.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×