Innlent

Landsbankinn fær 2,4 milljarða frá Valitor samkvæmt varfærnu mati bankans

Heimir Már Pétursson skrifar
Bankastjóri Landsbankans segir bankann fá 38 prósent af þeirri greiðslu sem Valitor muni fá fyrir hlut sinn í Visa Europe, sem varlega sé áætlað að verði tveir komma fjórir milljarðar króna. Fjármálaráðherra bíður nú svara Bankasýslunnar við bréfi hans til stjórnar hennar þar sem hann sagði stöðuna vegna Borgunarmálsins vera mjög alvarlega.

Í bréfi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra til stjórnar Bankasýslunnar hinn 11. febrúar vísaði hann til opinberrar umræðu um Borgunarmálið og sagði meðal annars "að samkvæmt upplýsingum og gögnum sem vísað hafi verið til í þeirri umræðu mætti ætla að það verð sem bankinn fékk fyrir eignarhlut sinn hafi verið mun lægra en eðlilegt gæti talist."

Fjármálaráðherra minnti á að þótt Bankasýslunni "hafi verið komið á fót til að ríkið væri trúverðugur eigandi fjármálafyrirtækja og að tryggt að ekki yrðu höfð pólitísk afskipti af rekstri slíkra fyrirtækja.... sé honum sem fjármálaráðherra ætlað að setja félögunum eigendastefnu þar sem gerð sé grein fyrir almennri stefnumörkun eiganda."

Fjármálaráðherra bíður svara Bankasýslunnar

Landsbankinn birti glæsilegt uppgjör sitt fyrir síðasta ár í gær þar sem m.a. er lagt til að ríkinu verði greiddur met arður, eða 28,5 milljarðar króna.

En í ljósi Borgunarmálsins er hins vegar ekki ólíklegt að fjármálaráðherra íhugi að gera breytingar á stjórn bankans. Það kæmi þá í hlut Bankasýslunnar að leggja fram slíkar breytingartillögur fyrir aðalfund Landsbankans í næsta mánuði.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar ætlar fjármálaráðherra ekki að bíða mikið lengur eftir viðbrögðum hennar við bréfi hans fyrir rúmum hálfum mánuði.

Fyrirvari Landsbankans við söluna á Valitor hefur ekki verið birtur opinberlega og hafa sumar heimildir fullyrt við fréttastofu að hann væri í engu betri en borgunarfyrirvarinn. En Steinþór Pálsson bankastjóri segir hagsmuni bankans tryggða þar.

„Ég veit ekki hvað þú átt við þar. Þar tryggðum við okkar hagsmuni til framtíðar. Inni í þeirri sölu fáum við 38 prósent af því sem Vísa eða valitor er að fá. Við áttum 38 prósent í félaginu. Þetta er líka í samræmi við það viðskiptamagn sem við höfum verið með hjá Vísa. Þannig að ég sé ekki annað en við höfum gætt okkar hagsmuna þar,“ segir Steinþór.

Samkvæmt varfærnu mati í ársuppgjöri bankans sé gert ráð fyrir að Landsbankinn muni fá um 2,4 milljarða vegna yfirtökunnar á Vísa Europe.

Skeytasendingar hafa hins vegar gengið á milli Borgunar og Landsbankans að undanförnu vegna fyrirvarans í borgunarsamningnum.

Þarf bankinn að gera hreint fyrir sínum dyrum?

„Málið er í athugun hjá Fjármálaeftirlitinu. Síðan er Bankasýslan líka að skoða málið. Við erum búin að skila af okkur mikið af gögnum, mikið af upplýsingum,“ segir Steinþór og bankinn bíði eftir því að þessir aðilar klári sína skoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×