Innlent

Prins póló og kók kveikjan að hálfrar aldar sambandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hjónin Böðvar Pálsson og Lísa Thomsen kynntust á sveitaballi í félagsheimilinu Borg í Grímsnesi fyrir rétt rúmum fimmtíu árum síðar. Haldið var upp á fimmtíu ára afmæli félagsheimilisins í gær og rifjuðu hjónin upp hvernig þau kynntust í tilefni þess.

„Ég bauð þessari stúlku upp og sleppti henni svo ekkert það sem eftir var af ballinu en ég gaf henni prins póló og kók,“ segir Böðvar.

Þau kynntust á sveitaballi sem haldið var í Gömlu Borg árið 1961, fyrir 55 árum og man Lísa vel eftir þessu.

„Hvort ég man, maður gleymir nú ekki svona. Þetta var voða gaman. Svo keyrði hann mig heim, ég var að vinna sem sundlaugarvörður á Laugarvatni. Hann sagði við fólkið sem kom með honum á ballið: Þið verðið að redda ykkur fari heim því að ég ætla að keyra dömu heim,“ segir Lísa með bros á vör.

Lísa og Böðvar kynntust á sveitaballi sem haldið var í Gömlu Borg.Vísir/Pjetur
Facebook komið í stað sveitaballa

Á Borg voru oft haldin fræg böll með vinsælustu hljómsveitum landsins. Sveitaböllin hafa nú verið aflögð en félagsheimilinu hefur verið breytt í menningarhús sveitarinnar. Böðvar og Lísa segjast bæði sakna sveitaballanna á Borg enda hafi fjölmörg ástarsambönd orðið til þar.

„Ég skil ekki hvernig fólk kynnist í dag þegar það eru ekki sveitaböll lengur en það er bara í gegnum Facebook og það finnst mér miður. Að geta ekki hitt manninn og dansað við hann og svona, augliti til auglits,“ segir Lísa áður en að Böðvar útskýrir hvað hafi að sínu mati gert út af við sveitaböllin.

„Ég held að þetta hafi gerst þegar bjórinn kom. Þá hætti fólk að hafa ánægju hvort að öðru, að taka utan um dömuna og dansa við hana. Labba svo út í bíl og gefa henni prins póló og kók,“ segir Böðvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×