Innlent

Hópslagsmál í hesthúsahverfinu á Selfossi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Á kortinu má sjá hvar hesthúsahverfið er.
Á kortinu má sjá hvar hesthúsahverfið er. vísir/loftmyndir.is
Lögreglan á Suðurlandi var kölluð út aðfaranótt sunnudags vegna 15 til 20 ungmenna sem voru í hópslagsmálum í hesthúsahverfinu á Selfossi. Þegar lögreglan kom á staðinn voru slagsmálin afstaðin, að því er segir á Facebook-síðu lögreglunnar, og hafði fækkað í hópnum. Tveir ungir karlmenn voru sárir eftir en með minniháttar áverka. Ekki liggur fyrir formleg kæra en málið er í rannsókn.

Þá var nokkuð um innbrot á Suðurlandi í liðinni viku en meðal annars var brotist inn í Þjónusutmiðstöðina á Þingvöllum á föstudagsmorgun og þaðan stolið skiptimynt. Öryggiskerfi fór af stað klukkan 07.25 og þegar öryggisvörður kom á staðinn var búið að brjóta rúðu á vesturhlið Þjónustumiðstöðvarinnar. Þjófnaðurinn er óupplýstur og engar vísbendingar um hver var að verki.

Alls voru 38 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í seinustu viku en lögreglumenn á Kirkjubæjarklaustri kærðu 13 þeirra á Suðurlandsvegi fyrir vestan og austan Klaustur.

Tólf voru erlendir ferðamenn og mældust tveir þeirra á 149 kílómetra hraða á klukkustund. Þá var einn tekinn á 142 kílómetra hraða, annar á 136 kílómetra hraða og aðrir voru ekki langt þar frá. Þrír ökumenn voru auk þess kærðir fyrir ölvunarakstur og einn fyrir fíkniefnaakstur.

Þá var karlmaður handtekinn á Hellu á miðvikudagskvölds vegna meints brots á nálgunarbanni. Hann var í haldi lögreglu á meðan frumrannsókn fór fram. Maðurinn var látinn laus eftir yfirheyrslu daginn eftir.

Helstu verkefni lögreglunnar á Suðurlandi vikuna 23. til 29. febrúar 2016. Í síðustu viku voru 38 ökumenn kærðir fyrir...

Posted by Lögreglan á Suðurlandi on Monday, 29 February 2016



Fleiri fréttir

Sjá meira


×