Innlent

Hagstæðustu vindarnir fyrir vélarnar beint yfir suðvesturhorninu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Reikna má með 700 vélar fari um íslenska flugstjórnarsvæðið um helgina og margar þeirra fara um suðvesturhornið vegna hagstæðra vinda.
Reikna má með 700 vélar fari um íslenska flugstjórnarsvæðið um helgina og margar þeirra fara um suðvesturhornið vegna hagstæðra vinda. vísir/kristjana
Fjöldi flugvéla sem flogið hefur yfir höfuðborgarsvæðið í dag og í gær hefur vakið athygli en reikna má með að um 700 vélar fari um íslenska flugstjórnarsvæðið þessa tvo daga. Margar þeirra hafa farið um suðvesturhornið vegna hagstæðrar vindáttar.

„Í dag eru í raun sömu aðstæður og í gær. Hagstæðustu vindarnir eru hérna beint yfir suðvesturhorninu og svo er mjög gott skyggni þannig að maður tekur meira eftir þessu en vanalega,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við Vísi. Hann segir að í gær hafi 316 vélar farið um íslenska flugstjórnarsvæðið og í dag stefnir í að þær verði alls 390.

Guðni segir fjöldann í sjálfu sér ekki óvenjulegan þar sem að meðaltali fara um 400 flugvélar um svæðið á sólarhring. Allt árið í fyrra fóru 145891 vélar um íslenska flugstjórnarsvæðið samkvæmt vef Isavia en mikill hluti þeirrar umferðar er milli Evrópu og Ameríku.

„Það er mismunandi eftir háloftavindum hvort að vélarnar milli Evrópu og Ameríku fari um íslenska flugstjórnarsvæðið eða það skoska. Þegar hagstæðustu vindarnir eru hjá okkur þá elta þær þá hingað og öfugt.“

Íslenska flugstjórnarsvæðið er stórt og nær til að mynda yfir meirihluta Grænlands og Norðurpólinn. Þannig er til að mynda aukin flugumferð yfir Norðurpólinn frá Asíu til Ameríku.

„Flugleiðin New York-Hong Kong er þannig orðin nokkuð algeng innan svæðisins,“ segir Guðni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×