Innlent

Kettir sem fundust í iðnaðarhúsnæði fá nær allir nýtt heimili

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá ættleiðingardegi Dýrahjálpar á Korputorgi í gær.
Frá ættleiðingardegi Dýrahjálpar á Korputorgi í gær. Vísir/Ernir
Nær allir þeirra rúmlega þrjátíu katta sem komið var fyrir hjá Dýrahjálp eftir að þeim var bjargað úr iðnaðarhúsnæði í október verða komnir á nýtt heimili í næsta mánuði. Ættleiðingardagur Dýrahjálpar sem haldinn var í gær gekk vonum framar.

Kettirnir sem boðnir voru til ættleiðingar í gær fundust við aðstæður þar sem umönnun og þrifnaði var verulega ábótavant og var umráðamaður húsnæðisins handtekinn. Alls fundust fimmtíu kettir í iðnaðarhúsnæðinu, þar af var 31 komið fyrir hjá Dýrahjálp.

Helena Rafnsdóttir hefur haldið utan um mál kattanna hjá Dýrahjálp. Hún hefur verið að hringja út frá því klukkan níu í morgun í þá sem óskuðu eftir því að ættleiða þessa ketti.  Enn er verið að reyna að ná í fólk en útlit er fyrir að aðeins um fjórir til sex af þessum 31 ketti verði ekki kominn með nýtt heimili á næstu dögum.

„Þetta þykir bara rosa gott,“ segir Helena. „Það voru auðvitað margir sem vildu sömu kisuna, en sem betur fer var hægt að snúa mörgum og fá þá til að skoða aðrar. Það geta ekki allir fengið sömu kisurnar.“

Enginn kattanna er kominn á heimili enn sem komið er, það á eftir að bólusetja þá og að því loknu tekur við ákveðinn biðtími. Helena segir þó að óbreyttu að nær allir verði komnir á heimili í mars. Hún tekur jafnframt skýrt fram að þeir kettir sem ekki fengu heimili verði áfram í umsjá Dýrahjálpar.

„Þó að kisurnar séu lengur hjá okkur, þá lógar Dýrahjálp aldrei dýrum,“ segir hún. „Við leggjum allt í að lækna þau ef þau eru mjög veik. Þannig að það þarf enginn að hafa áhyggjur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×