Innlent

Vilja sanngirni á Reykjavíkurflugvelli

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Eyjamenn vilja engar breytingar á Reykjavíkurflugvelli.
Eyjamenn vilja engar breytingar á Reykjavíkurflugvelli. Fréttablaðið/Pjetur
Sveitarstjórnir úti á landi samþykkja hver af annarri þessa dagana ályktanir vegna skipulagsmála á Reykjavíkurflugvelli þar sem mótmælt er fyrirhugaðri lokun á norðaustur-suðvesturbraut, sem heitir 06/24 en sumir kalla neyðarbraut.

Bæjarráð Vestmannaeyja tók í gær undir með meðal annars bæjaryfirvöldum á Akureyri og Ísafirði og ítrekaði andstöðu sína við áform um skerðingu flugþjónustu á Reykjavíkur­flugvelli og skoraði á ríkisstjórnina og borgarstjórn að tryggja óskerta starfsemi flugvallarins að minnsta kosti þangað til jafngóð eða betri lausn finnst.

„Bæjarráð telur með öllu ólíðandi að dregið verði úr öryggi sjúklinga og slasaðra sem þurfa að komast með hraði á Landspítalann,“ segir bæjarráð Vestmannaeyja.

Í ályktun bæjarráðsins kemur fram að 2015 hafi 93 verið fluttir í sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum um flugvöllinn í Reykjavík til læknisþjónustu og 109 árið 2014. Ekki kemur fram hversu marga þessara sjúklinga var lent með á braut 06/24.

„Því miður er óraunhæft að ætla að í náinni framtíð skapist þær aðstæður í íslenskri heilbrigðisþjónustu að ekki verði þörf á að koma mörgum af erfiðustu tilfellunum sem koma upp á landsbyggðinni á Landspítalann við Hringbraut. Þjónusta sjúkraflugs er því meðal búsetuforsenda í Vestmannaeyjum eins og svo víða á landsbyggðinni,“ segir bæjarráðið. Sanngjarnt sé að aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónustu, stjórnsýslu, viðskiptalífi og menningarlífi sé tryggt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×