Innlent

Hjallastefnan óskar eftir meira fjármagni

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Garðabær greiðir Hjallastefnunni í samræmi við meðalkostnað á bak við nemendur í grunnskólum bæjarins.
Garðabær greiðir Hjallastefnunni í samræmi við meðalkostnað á bak við nemendur í grunnskólum bæjarins. Vísir/Vilhelm
Framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar hefur ritað bæjarráði Garðabæjar bréf þar sem óskað er eftir breytingum á samningi hvað varðar fjárframlög til reksturs grunnskóla Hjallastefnunnar í bænum.

„Í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur á síðustu misserum hvað varðar starfsmat og kjarasamninga er ljóst að rekstrarskilyrði grunnskólanna eru afar erfið og þung,“ segir í bréfinu. Þar stendur ennfremur að núgildandi samkomulag byggist á rekstrarkostnaði grunnskóla í Garðabæ sem eru fjölmennir og hagkvæmir í rekstri.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar, segir gamla samninginn hafa verið hagstæðan á sínum tíma en aðstæður hafi breyst. Hjallastefnan er að fara fram á að fjármögnun skólans verði með sambærilegum hætti og í öðrum sveitafélögum eða að fylgt verði eftir svokölluðu Hagstofuviðmiði. Viðmiðið gerir ráð fyrir að einkareknir grunnskólar fái að lágmarki 75 prósent af meðalframfærslu grunnskóla.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir
„Í Garðabæ þróaðist það með þeim hætti að ekki var samið um Hagstofuviðmiðið heldur er greitt samkvæmt meðalkostnaði á nemanda í grunnskóla í Garðabæ,“ segir Ingibjörg. „Þá kom það bara vel út fyrir Hjallastefnuna en síðan það gerðist hefur meðalkostnaður grunnskólanna í Garðabæ lækkað á meðan Hagstofuviðmiðið hefur hækkað.“

Þá bendir hún á að í samningnum við Garðabæ er Hjallastefnunni ekki heimilt að rukka skólagjöld en það er til dæmis heimilt í Hafnarfirði og Reykjavík.

Þá kemur fram í bréfinu ósk um að Garðabær niðurgreiði einnig kostnað vegna frístundastarfs, frístundaakstur og akstur vegna íþróttaiðkunar nemenda. Þá óskar Hjallastefnan eftir því að liðir sem snúa að rekstrarkostnaði fasteigna, viðhaldi og kaupum á búnaði verði sérstaklega skoðaðir.

Foreldrar barna í grunnskóla Hjallastefnunnar í Garðabæ hafa sent bæjaryfirvöldum áskorun þess efnis að bærinn styðji Hjallastefnuna í að byggja sitt grunnskólastarf í bænum.

Bæjarráð fjallaði um málið í gær og hefur vísað því til skólanefndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×