Erlent

Merkel býst ekki við miklu af leiðtogafundi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kínversk mannvirki á eynni Yongxing.
Kínversk mannvirki á eynni Yongxing. vísir/epa
Angela Merkel Þýskalandskanslari á ekki von á því að tveggja daga leiðtogafundur Evrópusambandsríkjanna, sem hefst í Brussel í dag, muni skila miklum árangri.

Meginefni fundarins verða málefni flóttafólksins, sem streymt hefur til Evrópu frá Sýrlandi, Afganistan og fleiri löndum. Meira en milljón flóttamenn komu til Evrópu á síðasta ári.

Merkel varði stefnu sína á þingfundi í Berlín í gær. „Sá sem þarf á vernd að halda, á að fá vernd,“ sagði hún. Hins vegar hafi Evrópusambandsríkin engan veginn staðið sig.

Síðasta sumar samþykktu aðildarríki ESB að skipta á milli sín 160 þúsund flóttamönnum, þannig að hvert ríki fékk ákveðinn kvóta. Til þessa hafa þó einungis 500 manns fengið hæli út á þessar kvótahugmyndir.

„Við myndum gera okkur hlægileg ef við ætluðum aftur að fara að samþykkja kvóta,“ sagði hún.

Þess í stað verði einkum rætt um samstarf við Tyrkland, um að halda aftur af flóttafólkinu þar í landi þannig að sem fæstir haldi áfram til Evrópu. Takist það ekki, þá þurfi að skoða hvort ekki eigi að loka landamærum Grikklands í Makedóníu og Búlgaríu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×