Sport

Conor: Held áfram þar til ég er kominn með öll beltin

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Conor McGregor var heimsóttur í SGB-æfingasalinn í Dublin í gær þar sem Severe MMA tók áhugavert viðtal við hann.

McGregor fer að leggja í hann til Las Vegas þar sem hann mun keppa um heimsmeistaratitilinn í léttvigt gegn Rafael dos Anjos. Conor er heimsmeistari í fjaðurvigt.

„Ég er að velja þá bardaga sem ég vil og gera það sem ég vil. Þegar maður rakar inn 400 milljónum dollara fyrir fyrirtækið tvö kvöld í röð þá getur maður gert það sem maður vill. Mitt líf er orðið þannig að ég geri nákvæmlega það sem ég vil gera,“ segir Conor en það fer í taugarnar á mörgum hversu mikil völd hann virðist hafa hjá UFC. Þessi völd koma þó ekki á óvart enda er hann gullkálfur sambandsins.

Conor hefur verið tíðrætt um aumingjaskap annarra bardagamanna í UFC upp á síðkastið og nýtir hvert tækifæri til þess að bauna á aðra.

„Ég hef unnið fyrir þessu með mikilli vinnu og fórnum. Hvert sem ég lít í kringum mig í UFC þá sé ég menn þykjast vera að skila einhverri vinnu. Ég legg á mig alvöru vinnu og þess vegna er ég með fullkomna stjórn á þessum leik.“

Þar sem Írinn er að fara upp um einn þyngdarflokk þá þarf hann ekki að leggja á sig mikinn niðurskurð líkt og venjulega. Ef honum tekst að vinna Dos Anjos er þegar byrjað að tala um að hann fari upp í þriðja þyngdarflokkinn og keppi um beltið þar á UFC 200 næsta sumar. Sá flokkur er veltivigtin sem Gunnar Nelson keppir í.

„Af hverju ekki að fara upp um fleiri þyngdarflokk? Þar eru menn hægari og stífari. Ég mun halda áfram þar til ég er kominn með öll beltin. Þú sást mig með Fjallinu sem er risastór gaur. Ég pakkaði honum saman þannig að ég get vel farið alla leið,“ segir Írinn sem augljóslega útilokar ekki að fara alla leið upp í þungavigtina.

„Það eru aumingjar út um allt í þessari íþrótt. Ég er hér til að berjast og vinna öll beltin. Svo læt ég mig hverfa.“

Viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan en þar talar Conor um margt fleira.

UFC 196 fer fram þann 5. mars næstkomandi og verður í beinni á Stöð 2 Sport.

MMA

Tengdar fréttir

Conor rífst við þungavigtarmeistarann

Írinn kjaftfori, Conor McGregor, er á góðri leið að fá alla bardagamenn í UFC, fyrir utan Gunnar Nelson, upp á móti sér. Nú síðast hjólaði hann í þungavigtarmeistarann, Fabricio Werdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×