Innlent

Ríkissaksóknari blankur í byrjun árs

Snærós Sindradóttir skrifar
Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari.
Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari.
Embætti ríkissaksóknara vantar hátt í þrjátíu milljónir króna til að geta staðið undir verkefnum embættisins í ár. Þetta er mat Sigríðar Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara. Um áramótin færðist ákæruvald ríkissaksóknara í sakamálum til nýs embættis héraðssaksóknara.

Við tilfærsluna fækkaði ákæruverkefnum ríkissaksóknara en á móti jókst eftirlitshlutverk embættisins. Embættið fer enn með saksókn í málum sem rata til Hæstaréttar auk þess sem nú er hægt að kæra niðurfellingu kynferðisbrota, eða annarra ofbeldisbrota, til ríkissaksóknara.

„Það má sjá fyrir sér að það verði hundrað mál eða meira á ári. Miðað við þá fjölgun sem er í kynferðisbrotamálum og að það er tiltölulega há niðurfellingaprósenta þar,“ segir Sigríður.

Hún segir að breytingarnar hafi átt að stuðla að því að styrkja og efla embætti Ríkissaksóknara. „En við fáum minna fjármagn en við vorum með sem hefur leitt til þess að það hefur fækkað um þrjá ákærendur hjá mér. Auðvitað er gott að þessir þrír fóru yfir til héraðssaksóknara en það er ekki þar með sagt að ég geti misst þrjú stöðugildi. Svo var embættið að flytja, sem kostaði einhverjar milljónir sem við áttum ekki til. Við fengum ekki viðbótarfjárveitingu út af því.“

Sigríður segir að þá sé málahalli frá síðasta ári að þvælast fyrir embættinu en um hundrað mál urðu eftir hjá Ríkissaksóknara við breytinguna. „Það er vond staða að vera fáliðaður við upphaf nýs kerfis. Við vonum það besta en það hefði verið betra ef það hefði verið aðeins betur gefið í. Það er margt sem við höfum ekki sinnt hingað til svo sem tölfræði og alþjóðleg samskipti. Það kostar peninga.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.