Fótbolti

Romario er fimmtugur í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romario með HM-bikarinn 1994.
Romario með HM-bikarinn 1994. Vísir/Getty
Brasilíska knattspyrnugoðsögnin og síðar stjórnmálamaðurinn Romario fagnar fimmtugsafmæli sínu í dag en hann er fæddur 29. janúar 1966.

Romario er einn af mestu markaskorurum knattspyrnuheimsins frá upphafi en hann var lykilmaður þegar Brasilíumenn urðu heimsmeistarar 1994 og enduðu þá 24 ára bið þjóðar sinnar eftir þeim titli.

Romario spilaði fótbolta í 23 ár og í fimm álfum en þekktastur er hann fyrir tíma sinn hjá PSV Eindhoven og Barcelona. Romario skoraði 96 mörk í 107 leikjum með PSV frá 1988 til 1993 og fór svo yfir til Barcelona þar sem hann skorað 34 mörk í 46 leikjum.

Hápunktur ferilsins var án efa sumarið 1994 þegar hann nýbúinn að skora 30 mörk í 33 deildarleikjum fyrir draumalið Johan Cruyff hjá Barcelona og fylgdi því eftir með að leiða brasilíska landsliðið til sigurs á HM í Bandaríkjunum.

Romario var valinn besti leikmaður keppninnar en hann skorað fimm mörk á HM í Bandaríkjunum 1994 þar á meðal sigurmarkið á móti Svíþjóð í undanúrslitaleiknum. Romario skoraði líka í vítakeppninni í úrslitaleiknum á móti Ítölum.

Romario skoraði 55 mörk í 70 landsleikjum með Brasilíu á árunum 1987 til 2005 og er hann þriðji markahæsti landsliðsmaður Brassa á eftir þeim Pele og Ronaldo.

Romario skoraði yfir þúsund mörk á ferlinum eða því heldur hann sjálfur fram þótt að knattspyrnutölfræðingar hafi ekki svo mörg mörk á hann. Á Wikipedia kemur fram að hann hafi skorað 688 mörk í 886 leikjum í öllum keppnum með félagsliðum sínum sem er enginn smá fjöldi.

Romario lagði ekki skóna endanlega á hilluna fyrr en árið 2009 þegar hann var orðinn 43 ára gamall en hann hefur síðar verið á fullu í stjórnmálum í heimalandi sínu. Romario er nú þingmaður fyrir Rio de Janeiro.

Romario var á toppi ferilsins 1994.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×