Innlent

Ósátt við söluaðferðir einkaaðila á flugeldum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Jón Ingi Sigvaldason frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir flugeldasölu ársins svipaða og í fyrra. Endanlegar sölutölur liggja þó ekki fyrir.
Jón Ingi Sigvaldason frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir flugeldasölu ársins svipaða og í fyrra. Endanlegar sölutölur liggja þó ekki fyrir. Mynd/Rósa Jóhannsdóttir
„Aukin samkeppni í flugeldasölu hefur áhrif á okkur. Við höfum reyndar aldrei sett okkur upp á móti samkeppni frá íþróttafélögum og öðrum félögum. Það er helst einkabransinn sem er að trufla en hann fer óhefðbundnar leiðir í sölu,“ segir Jón Ingi Sigvaldason frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Jón nefnir dæmi um að einkaaðilar hafi boðið vöru á fjörutíu prósenta afslætti sem hefur ekki verið til sölu áður. „Svo finnst mér mjög skrítið að einkaaðilar séu byrjaðir að selja flugelda áður en lögbundinn sölutími flugelda hefst. Minn skilningur er þannig að jafnvel þótt þú seljir á netinu er það sala,“ segir Jón en samkvæmt lögum má aðeins selja flugelda á ákveðnu tímabili.

Endanlegar sölutölur eru ekki komnar yfir flugeldasölu ársins en Jón er nokkuð viss um að salan hjá Landsbjörg hafi verið svipuð og í fyrra.

„Salan var mjög svipuð á flestum stöðum. Hún fór reyndar upp á einhverjum sölustöðum og niður á öðrum,“ segir Jón og bætir við að salan hafi þó verið fjölbreyttari í ár. „Það var ekki eitthvað eitt sem var vinsælast eins og venjulega er.“

Jón kveðst vera ánægður með stuðninginn. „Þetta er stuðningur sem við gætum ekki verið án. Landsmenn virðast vera tilbúnir að aðstoða okkur hvenær sem er.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×