Innlent

12 ára skorin um allan líkama en fær ekki hjálp

Sveinn Arnarsson skrifar
"Dóttir mín gerir sér grein fyrir því að hún þarf á hjálp að halda,“ segir Valdís Ósk, fjögurra barna einstæð móðir.
"Dóttir mín gerir sér grein fyrir því að hún þarf á hjálp að halda,“ segir Valdís Ósk, fjögurra barna einstæð móðir. vísir/ernir
Valdís Ósk Valsdóttir, einstæð fjögurra barna móðir í Reykjanesbæ, segist koma að lokuðum dyrum vegna veikinda 12 ára dóttur sinnar. Dóttir hennar býr við sjálfskaðandi hegðun og hefur litla sem enga hjálp fengið í heilbrigðiskerfinu í um eitt og hálft ár. „Þetta er spurning um líf og dauða,“ segir Valdís.

„Það er um eitt og hálft ár síðan dóttir mín reyndi sjálfsvíg. Ég enda með hana á spítala á þriðjudegi og fæ í kjölfarið neyðartíma á BUGL. Sá neyðartími var fjórum sólarhringum seinna og því þurfti ég að bíða eftir honum og vaka yfir dóttur minni. Viðtalið á BUGL var um 20 mínútur að lengd. Svo fæ ég bara viku seinna blað inn um lúguna um að barnið mitt sé útskrifað af stofnuninni og segja ekki þurfa að greina málið frekar,“ segir Valdís Ósk. „Nú er svo komið að hún er skorin um allan líkama vegna sjálfskaðandi hegðunar og ég hef tilkynnt allt til barnaverndaryfirvalda til að fá hjálp en ekkert gerist. Í mínu tilfelli er þetta spurning um líf og dauða barnsins.“

Sjá einnig: Dæmi um að börn allt niður í tíu ára skaði sig viljandi

Valdís Ósk segir sig koma að lokuðum dyrum í heilbrgðiskerfinu. Ef hún væri með líkamlega sjúkdóma væri hún búin að fá aðstoð fyrir löngu síðan en þar sem dóttir hennar eigi við andleg veikindi að stríða sé lítið hægt að gera. Langir biðlistar eftir aðstoð geri lítið fyrir hana. Barnið hennar hafi fyrir skömmu leitað í áfengi til að lina þjáningar sínar, þá aðeins 12 ára gömul. „Ef ekkert verður að gert mun barnið enda á kafi í fíkniefnum innan árs því hún leitar í hvaðeina til að deyfa sársaukann innra með henni. Því skiptir máli að gera eitthvað sem fyrst fyrir barnið því hún þarf svo sannarlega á hjálp að halda."

Stundar lítið skóla

Dóttir Valdísar Óskar réðist á hana í fyrsta skipti fyrir stuttu síðan. Þegar hún reiðist þá grýtir hún hlutum og þetta komi hart niður á fjölskyldunni. „Fólk gerir sér ekki grein fyrir því hvernig þetta er. ÉG er búin að vera að berjast við þetta í eitt og hálft ár og þetta er gríðarlega erfitt. Þetta er ekkert grín. Á þessum tíma hef ég ekki einu sinni fengið greiningu á barninu mínu, hvort það sé eitthvað að. Ég hef í rauninni ekki fengið neitt í gegn. Ég spurði hvort ég gæti fengið sálfræðing sjálf og látið heilbrigðiskerfið greiða fyrir það en það var ekki hægt,“ segir Valdís Ósk. „Þá var mér tjáð að ég gæti auðvitað bara pantað svona mat sjálf en ég sem fjögurra barna einstæð móðir á engar hundrað og fimmtíu þúsund krónur til að setja í þetta.“

Dóttir Valdísar reynir að fara í skólann eins mikið og hún getur en það getur reynst henni ofviða. Mætingin hennar er stopul. „Í gær fór hún í skólann en var komin heim þegar klukkuna vantaði fimmtán mínútur í tíu, hágrátandi vegna vanlíðan. Það þarf enginn að segja mér að barninu mínur líður hrikalega og þarf hjálp. Deginum áður mætti hún ekki í skólann. Þannig er þetta með hana og það bitnar líka á krökkunum í bekknum sem spyrjast fyrir um hvort það sé allt í lagi með hana.“

Sker sig til að deyfa sig

Dóttirin hefur skorið sig síðasta árið og sker sig á öllum líkamanum. „Hún er bara eitt ör á höndunum. Ef henni líður illa yfir einhverju þá deyfir hún bara sínar tilfinningar með því að skera sig. Nú er svo komið að hún sker sig á öllum líkamanum og er með ör alls staðar nema í andlitinu. Hún skrúfar líka allt í sundur og notar það til að skera sig. Yddarar til dæmis skrúfar hún í sundur til að ná blaðinu til að skera sig. Skurðirnir ná ekki einu sinni að gróa áður en hún sker sig aftur,“ segir Valdís Ósk. „Það er líka þannig að hana langar ekkert til að skera sig en samt sem áður virðist hún alltaf leita í þetta úrræði þegar henni líður hvað verst. Því er svo mikilvægt að hún fái einhver úrræði til að takast á við vandann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×