Þuríður Ósk Gunnarsdóttir, stjórnarmaður í íbúðasamtökum Engihjalla í Kópavogi vill taka á málefnum ölstofunnar Riddarans, sem stendur við götuna. Hún segir fyrirliggjandi að forráðamenn knæpunnar séu með umdeildri auglýsingu sinni að hvetja til ofbeldis gegn konum.
Vísir greindi frá því fyrir stundu að auglýsing ölstofunnar Riddarans hafi gengið fram af fólki, en með hvatningu um að menn láti nú sjá sig á barnum fylgir mynd af tjóðraðri konu í jólasveinabúningi.
Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, eiginlega má segja að netið hafi sprungið (ef tekið er óformlega til orða); fordæmingar hrannast inn á Facebooksíðu staðarins og er eigendum ekki vandaðar kveðjurnar. Talsmenn knæpunnar reyna eftir föngum að slá á létta strengi í svörum sínum en heldur er það nú til þess fallið að ausa olíu á eldinn en hitt:
„Riddarinn Ölstofa Nù það er einfaldlega svo..að jòlin eru að klàrast, þà bindum við þetta allt saman. [Broskall.] hvort sem um flòkið jòlaskraut er að ræða eða bara þetta einfalda.“ Og: „Riddarinn Ölstofa Ragnhildur það er einmitt það. Það er einfaldlega alltof mikið af konum hér hjà okkur à Riddaranum -- við hreinlega erum ràðþrota.“
Þuríði Ósk Gunnarsdóttur, sem situr í stjórn íbúasamtaka Engilhjalla, henni er ekki skemmt nema síður sé. Og hún boðar til aðgerða í athugasemd sinni: „Mikið er þetta ógeðsleg auglýsing og hrokasvör frá barnum - ég bý í götunni og er í stjórn Íbúasamtaka Engihjalla og það er gersamlega gengið fram af mér! Þessi auglýsing hvetur til ofbeldis gegn konum. Ef þessu heldur áfram mun ég gera allt sem ég get mögulega gert til að reyna að koma þessum bar úr götunni!“
Stjórnarmaður íbúasamtaka vill taka á eigendum Riddarans

Tengdar fréttir

Auglýsing Riddarans sögð ógeðsleg
Auglýsing Ölstofunnar Riddarans í Kópavogi vekur upp almenna hneykslan á Facebook.