Innlent

Starfsmenn reyndu að slökkva eldinn í vélsmiðjunni á Akranesi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Húsnæði Jötunstáls er talið ónýtt.
Húsnæði Jötunstáls er talið ónýtt. Vísir/Jói K
Greiðlega gekk að slökkva eldinn sem kom upp í húsnæði vélsmiðjunnar Jötunstáls á Akranesi í morgun. Reyndu starfsmenn að að slökkva eldinn en slökkviliðsmaður að störfum í grennd við vélsmiðjuna kom þeim út þegar hann sá að eldurinn magnaðist.

Þráinn Ólafsson, slökkviliðstjóri slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar segir að starfsmenn hafi orðið varir við eldinn er þeir komu til vinnu í morgun. Hafi þeir reynt að slökkva eldinn með slökkvitæki. Slökkviliðssmaður sem var við vinnu sínu í grennd við vélsmiðjuna varð hins vegar var við eldinn og kom á vettvang. Mat hann aðstæður þannig að að starfsmennirnir ættu að forða sér út en gasskútar voru inn í húsnæðinu.

Urðu slökkviliðsmenn varir við sprengingar vegna gaskútanna og fóru sér því hægt í byrjun slökkvistarfs en gekk það greiðlega eftir að hluti þaksins var rifinn og var slökkvistörfum að mestu lokið um klukkan ellefu í morgun.

Vélsmiðjan er staðsett í húsnæði þar sem finna má þrjú verkstæðisbil. Er aðstaða vélsmiðjunnar talinn gjörónýt en einnig urðu nokkrar skemmdir á fiskvinnslu í næsta bil við hliðina á vélsmiðjunni.

Tæknideild lögreglunnar mun rannsaka eldsupptök en aðeins eru um níu mánuðir frá því að eldur kom upp í sama húsnæði vélsmiðjunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×