Innlent

Grastoppar, skítur og drulla víða um miðborgina

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Formaður Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur er ósáttur við umhirðu og umgengni í miðborginni og segir að stjórnendur Reykjavíkurborgar verði að taka sig á til þess að halda miðborginni aðlaðandi fyrir ferðamenn sem hingað koma.

Fréttastofan þurfti ekki að leita langt á ferð sinni um miðborgina í dag til þess að finna svæði sem væru illa hirt og sóðaleg. Formaður íbúasamtaka í miðborg Reykjavíkur er orðinn þreyttur á sóðaskap þeirra sem um miðborgina fara, veggjakortara, sem fá að því er virðist, að leika lausum hala og umhirðu Reykjavíkurborgar á áberandi stöðum í Reykjavík.

Hann segir einnig að aukinn ferðamannastraumur og aukinn sóðaskapur í miðborginn haldist ekki í hendur.

„Það er mikill munur á til dæmis Sólavörðustígnum og hliðargötunum í kring. Maður sér það alveg að honum er haldið þokkalega hreinum, en við þurfum ekki að fara langt inn eftir Bergstaðastrætinu til þess að finna grastoppa, skít og drullu. það er ekki nóg að vera með vélsópa sem keyra hérna um göturnar og komast ekki að fyrir bílum. Það þyrftu líka að vera bara menn á fæti með tunnu og fægiskóflu og kúst eins og var í gamladaga,“ segir Benóný Ægisson, formaður Íbúasamtaka í miðborg Reykjavíkur.

Benóný segir að íbúasamtökin hafi kynnt sér hvaða fyrirkomulag sé á umhirðu Borgarinnar í miðbænum.

„Síðan er vorhreingerning og það er hausthreingerning. Það er liðin tíð að skólakrakkar, unglingar og ungmenni séu að vinna við þetta allt sumarið,“ segir Benóný.

Víða í miðborginni eru stórar og miklar framkvæmdir og segir formaður íbúasamtakanna í miðborginni að það séu svona svæði sem fái að standa óáreitt vegna þeirra framkvæmda.

„Þetta er mikið í kringum byggingaframkvæmdir. Ef þú sérð einhverja holu og eitthvað ófrágengið þá ert þú ekkert sjálfur að ganga vel um. Þannig að það bíður einginlega upp á sóðaskap að það sé ekki gengið almennilega um þessi byggingarsvæði,“ segir Benóný.

Benóný segir að reglulega sé þetta rætt innan samtakana og að menn hafi áhyggjur af því að ekki verði bætt úr.

„Við höfum ekki kannski beint ályktað um þetta nema við skoruðum á borgarstjórn að taka samræður við okkur vegna þess að þetta ástand eins og það er núna er ekki nógu gott. Það þarf að samræma aðgerðir allra þeirra sem koma að þessu máli. Borgarinnar, íbúanna, rekstaraðilanna og ferðaþjónustunnar til þess að þetta verði að einhverju viti. Mér finnst eins og við séum að fara alltof hratt inn í þetta. Þetta eru svo miklir vaxtarverkir sem fylgja þessu að þetta verður að skoðast,“ segir Benóný




Fleiri fréttir

Sjá meira


×