Innlent

Samtal stjórnar og andstöðu leiði vonandi eitthvað gott af sér

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, segist treysta því að með samtali allra flokka muni samstaða nást um afgreiðslu áherslumála ríkisstjórnarinnar og ákvörðun um dagsetningu Alþingiskosninga. Þingmenn snúa aftur til starfa á morgun eftir sumarfrí.

Störf þingsins hefjast á nefndarstörfum en hefðbundnir þingfundir taka loks við eftir helgi.Tólf þingfundardagar eru á dagskrá þingsins og því knappur tími fyrir ríkisstjórnina til að klára sín áherslumál.

Einar segir að fyrirhugað sé að funda með fulltrúum þingflokkanna til að ná sáttum um afgreiðslu þingmála og dagsetningu Alþingiskosninga.

„Það er framundan fundur með þingflokksformönnum. Nú á föstudaginn verður hefðbundinn haustfundur forsætisnefndar sem haldinn verður á Ísafirði þar sem við förum yfir stóru drættina í störfum þingsins,“ segir Einar. „Það verður að vísu afbrigðilegt frá því sem oftast hefur verið þar sem að er ekki verið að skipuleggja komandi þinghald. Það er gert ráð fyrir kosningum eins og allir vita. Þannig að þetta verður stuttur fundur, en við erum að reyna að leggja línurnar að öðru leiti.“

Einar er vongóður um að stjórn og stjórnarandstaða nái saman. Hann getur ekki sagt til um það hvort að stjórnarandstaðan muni standa í vegi fyrir greiðlegri afgreiðslu þingmála.

„Ég hef auðvitað ekkert fyrir mér í þeim efnum nema það sem ég hef heyrt frá forystumönnum stjórnarandstöðuflokkanna,“ segir hann. „En ég er vongóður um það að samtal á milli stjórnar og stjórnarandstöðu geti leitt eitthvað gott af sér. Það hefur verið boðað að slíkir fundir verði haldnir og þá fara að skýrast línur um dagsetningu kosninga og þau mál sem áhersla verður lögð á.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×