Innlent

Fari ekki í fangelsi fyrir fíkniefnaneyslu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þeim sem sprauta vímuefnum í æð verði tryggð gjaldfrjáls nálaskiptaþjónusta.
Þeim sem sprauta vímuefnum í æð verði tryggð gjaldfrjáls nálaskiptaþjónusta. Vísir/Anton
Refsing fyrir vörslu og meðferð á neysluskömmtum ólöglegra vímuefna verður bundin við sektir, nái tillögur starfshóps heilbrigðisráðherra fram að ganga. Hópurinn hafði það hlutverk að móta stefnu til að draga úr skaðlegum áhrifum vímuefnaneyslu.

Nefndin segir í rökstuðningi með tillögunni að um árabil hafi sú venja mótast við framkvæmd laga um ávana- og fíkniefni að þeim sé lokið með sekt þegar talið er víst að magn haldlagðra efna sé til einkaneyslu. Engu að síður er enn gert ráð fyrir því í lögum að hægt sé að dæma menn í fangelsi fyrir slík brot. Starfshópurinn leggur til að lögum verði breytt svo þau verði í takt við það hvernig þeim hefur verið framfylgt. Hópurinn tekur fram að sérstaklega þurfi að fylgjast með hvort breytingin leiði til breyttra söluaðferða og dreifingar vímuefna og áhættumat verði gert á áhrifum lagabreytingarinnar.

Fulltrúi Ríkislögreglustjóra í starfshópnum leggst gegn breytingunni.

Þá leggur starfshópurinn til að brot fyrir vörslu á fíkniefnum fari ekki á sakaskrá ef sektin við brotinu er lægri en 100 þúsund krónur.

Tillögur hópsins snúa ekki einungis að því að breyta lögum til þess að draga úr refsinæmi vímuefnaneyslu. Þar eru líka tillögur um þjónustu og úrræði sem hafa þann tilgang að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar löglegra og ólöglegra vímuefna án þess endilega að draga úr vímuefnanotkun. Þá eru líka tillögur um að efla meðferðarúrræði fyrir fólk í mesta vandanum og tillögur til að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur í forvarnarstarfi.

Starfshópurinn, undir forystu Borgars Þórs Einarssonar lögfræðings, hefur unnið að skýrslunni frá árinu 2014. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins verður skýrslan kynnt á Alþingi í dag. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×