Innlent

Ráðherrar ábyrgðarlitlir gagnvart úrskurðarnefndum

Heimir Már Pétursson skrifar
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. Vísir/GVA
Umboðsmaður Alþingis hefur áhyggjur af stöðu og fjölgun sjálfstæðra úrskurðarnefnda og segir að þær taki oft ábyrgð á málum frá ráðherrum sem fara með einstaka málaflokka. Þá geti þessar nefndir dregið úr faglegri þekkingu sem verði að vera til staðar í ráðuneytum.

Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis kynnti ársskýrslu embættisins fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins í gær. Á fundi nefndarinnar var töluvert rætt um stöðu og starfsemi sjálfstæðra úrskurðarnefnda á vegum hins opinbera og lýsti umboðsmaður áhyggjum sínum af þeim málum. En á undanförnum nokkrum áratugum hefur nefndum af þessu tagi fjölgað.

„Ég hef á undanförnum árum haft uppi athugasemdir og ábendingar um að menn þyrftu að gæta að sér varðandi þessa þróun. Við byggjum hér á landi á því að ráðherra beri ábyrgð á stjórnsýslunni og hann ber ábyrgð á henni gagnvart Alþingi,“ segir Tryggvi.

Úrskurðarnefndir fara ekki alltaf eftir ábendingum umboðsmanns

Þegar embætti umboðsmanns komist í eftirliti sínu að því að ekki hafi verið gætt nægjanlega að settum reglum í starfi sjálfstæðrar úrskurðarnefndar skili hann sínu áliti þar um. Þar fari hins vegar eftir vilja einstakra nefnda hvort þær fari að tilmælum umboðsmanns.

„Það hefur aðeins borðið á því að það hefur ekki verið gert. Þá hefur borgarinn þurft að leita til dómstóla og kannski fengið þá niðurstöðu að afstaða umboðsmanns hafi verið rétt. Ráðuneytin hafa í sumum tilvikum verið sammála afstöðu umboðsmanns. Vandinn er sá að ráðherrann hefur mjög takmarkað að segja um þessar sjálfstæðu úrskurðarnefndir. Hann er í eðli sínu ekki í talsambandi við þær að því leytinu til að hann geti haft áhrif á það hvernig þær í raun og veru beita sínu ákvarðanavaldi,“ segir umboðsmaður.

Ráðherra hafi eftirlit með að nefndirnar vinni sína vinnu en þar með ljúki hlutverki hans. Ábendingar umboðsmanns fari til Alþingis en það sé til lítils fyrir þingið að taka málið upp við ráðherra í þessari stöðu. Vegna fjölgunar sjálfstæðra úrskurðarnefnda undanfarin ár segist Tryggvi lengi hafa lýst áhyggjum af faglegri þekkingu á framkvæmd stjórnsýslu í ráðuneytunum.

„Hún er þá bara úti í bæ hjá einhverjum sem ekki eru partur af ráðuneytinu og þá stjórnsýslu ráðherrans,“ segir Tryggvi.

Og þar með er ábyrgð ráðherrans komin í sviga ef svo mætti segja?

„Já, það er í raun og veru afleiðing af þessu. Hann ber ekki ábyrgð á störfum þessara sjálfstæðu úrskurðarnefnda og jafnvel sjálfstæðra stofnana. Það kunna að vera rök fyrir því á ákveðnum sviðum að nauðsynlegt sé að koma þessu skipulagi á. En þá hef ég líka sagt að þá þurfi kannski að byrja á löggjöfinni.“

Ákvarðanir í stjórnsýslunni séu matskenndar þar sem lagt sé mat á hvort fólk falli undir skilyrði laga og reglna.

„Það er auðvitað byggt á þeirri grundvallarhugsun að á bakvið er þessi pólitíska ábyrgð sem ráðherrann ber stjórnsýslulega gagnvart þingnu. Nú ef hún er ekki lengur til staðar held ég að menn verði að huga að því að löggjafinn þurfi að tala skýrar um þær reglur sem þessar sjálfstæðu úrskurðarnefndir eiga að prófa,“ segir Tryggvi Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×