Innlent

Mikill meirihluti vill sektir í stað fangelsis

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Helmingur þeirra sem Fréttablaðið spurði segist vilja breyta fíkniefnalöggjöfinni á þennan hátt.
Helmingur þeirra sem Fréttablaðið spurði segist vilja breyta fíkniefnalöggjöfinni á þennan hátt. Vísir/Pjetur
„Ég held að þessi könnun styðji það að fólk vilji breytingar, en þær verða að gerast með yfirveguðum hætti,“ segir Borgar Þór Einars­son lögfræðingur. Hann er formaður starfshóps um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum áhrifum vímuefnaneyslu. Ein af tillögunum er að breyta lögum þannig að varsla á neysluskömmtum fíkniefna varði sektum en ekki fangelsisvist.

Helmingur þeirra sem Fréttablaðið spurði segist vilja breyta fíkniefnalöggjöfinni á þennan hátt, fjórðungur vill ekki breytingar, 22 prósent eru óákveðin, en þrjú prósent svöruðu ekki spurningunni. Þegar einungis er litið til svara þeirra sem afstöðu tóku sést að tveir af hverjum þremur eru hlynntir því að breyta löggjöfinni þannig að varsla á neysluskömmtum varði sektum en ekki fangelsi. Þriðjungur er aftur á móti andsnúinn því að gera slíkar breytingar.

Borgar Þór segir augljóst að í samfélaginu séu uppi háværar raddir, bæði þeirra sem vilja ekki gera neinar breytingar og þeirra sem vilja stíga mjög róttæk skref.

Rétt er að taka fram að sú venja hefur nú þegar mótast við framkvæmd fíkniefnalaga að málum er lokið með sekt þegar öruggt þykir að magn haldlagðra efna sé til einkaneyslu. Tillaga starfshópsins snýst því í raun um að breyta lögum þannig að þau endurspegli framkvæmd þeirra.

Könnunin var gerð þannig að hringt var í 1.164 manns þar til náðist í 795 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 6. og 7. september. Svarhlutfallið var 68,3 prósent. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×