Innlent

Hundurinn Perla gerði nágrönnum viðvart um eldinn á Seltjarnarnesi

Birta Svavarsdóttir skrifar
Mikið tjón varð vegna eldsvoða í íbúðarhúsi á Seltjarnarnesi í dag. Enginn var heima þegar eldurinn kom upp en hundur í húsinu, hin fimmtán ára gamla Perla, drapst eftir að hafa gert nágrönnum viðvart um eldinn með gelti. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. 

Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út þegar tilkynning barst um eld í tvílyftu íbúðarhúsi við Melabraut á Seltjarnarnesi. Í fyrstu virtist eldurinn hafa komið upp í bílskúr samtengdum húsinu, en samkvæmt einum íbúa hússins kom eldurinn upp í stofunni.

Það voru nágrannar sem fyrstir urðu varir við mikla reykjarlykt og hundsgelt. Þegar þeir komu á staðinn skíðlogaði í bakhúsinu og þeir gripu til þess ráðs að reyna að tjónka við eldinn með garðslöngu þar til slökkvilið kæmi á staðinn, en það var til lítils.

Mikill reykur var í húsinu og voru reykkafarar sendir inn.Vísir
Þegar nágrannarnir komu fyrstir á vettvang stóðu eldtungurnar út úr hlið hússins og reykurinn var mikill. Þriggja manna fjölskylda er skráð til heimilis í húsinu og var ekki vitað fyrir víst hvort eitthvert þeirra væri heima. Því voru reykkafarar sendir inn, bæði á efri og neðri hæð.

Í samtali við fréttamann Stöðvar 2 sagði Finnur Hilmarsson, aðstoðarvarðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, „Húsið var allt orðið fullt af reyk, bæði efri og neðri hæðin, en það gekk mjög vel að slá á þetta strax og svo gengu slökkvistörf sinn vanagang.“

„Við vorum ekki búin að fá neinar staðfestingar um það hvort það væri einhver inni svo við leituðum af okkur allan grun og það var enginn inni, sem betur fer.“

Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins.Vísir
Heimilishundurinn sem nágrannar heyrðu gelta inni í húsinu reyndist hins vegar dauður. Að sögn slökkviliðs var lítil hætta á því að eldurinn bærist í nærliggjandi hús.

„Það er töluvert langt á milli húsa hérna svo að þetta var nokkuð einangrað, “ segir Finnur aðstoðarvarðstjóri. Aðspurður um hvort þetta væri mikið tjón sagðist hann líta á að svo væri, en ekki væri hægt að að meta fullkomlega umfang þess fyrr en búið væri að skoða það betur.

Frétt Stöðvar 2 má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×