Innlent

"Það er ekki mikil refsing á Íslandi ef þú fremur glæpi“

Anton Egilsson skrifar
Viðar vandar Hæstarétti ekki kveðjurnar.
Viðar vandar Hæstarétti ekki kveðjurnar. MYND//SKJÁSKOT AF VEFSÍÐU RÚV/ FÉSBÓKARSÍÐA VÅLERENGA
Landsliðsmaðurinn Viðar Örn Kjartansson er ósáttur með nýfallinn dóm Hæstaréttar í máli gegn Erlendi Eysteinssyni, fyrrum sambýlismanni móður hans. Viðar tjáði sig um málið í stöðuuppfærslu á fésbókarsíðu sinni en hann er ósáttur með þá refsingu sem Hæstiréttur dæmdi Erlendi.

„Það er ekki mikil refsing á Íslandi ef þú fremur glæpi. Hæstiréttur með allt gjörsamlega lóðrétt niður um sig að venju.“ sagði Viðar í stöðuuppfærslu sinni í gærkvöldi.

Kjartan Björnsson, rakari á Selfossi og faðir Viðars bætti við ummælum á stöðuuppfærslu Viðars en þar segir hann „í það minnsta löngu tímabært að maðurinn fái dóm.“  

Dæmdur fyrir fjölmörg brot 

Vísir greindi frá því í gær að Hæstiréttur hafi dæmt Erlend í tveggja ára fangelsi fyrir fjölmörg brot í garð Ásdísar Hrannar Viðarsdóttur og barna hennar en Ásdís er móðir Viðars Arnar. Erlendur var dæmdur fyrir fjölmörg brot gegn Ásdísi og börnum hennar en hann hefur ofsótt hana ítrekað frá árinu 2012.

Með dómi sínum þyngdi Hæstiréttur refsingu Erlends en Héraðsdómur Norðurlands Eystra dæmdi hann til fjórtán mánaða fangelsisvistar í nóvember síðastliðnum.

Hefur lítið tjáð sig um málið

Viðar hefur áður tjáð sig lítillega um mál móður sinnar við norska fjölmiðla en það gerði hann í maímánuði árið 2014 er hann var á mála hjá norska úrvalsdeildarliðinu Vålerenga.  

„Vissulega hefur þetta áhrif á mig. Ég vil gera allt til þess að tryggja öryggi fjölskyldu minnar en það er svo lítið sem ég get gert við þessu. Maður reynir að aðstoða og auðvitað væri betra ef ég væri núna heima á Íslandi.“ sagði Viðar í samtali við norska miðilinn Dagbladet aðspurður um málið.


Tengdar fréttir

Ofsækir Ásdísi aftur eftir árs hlé

Ásdís Hrönn Viðarsdóttir hefur ítrekað kært brot á nálgunarbanni sem sett var á fyrrverandi sambýlismann hennar, fyrst árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×