Innlent

Kópavogsbær opnar bókhald sitt fyrir almenningi

Heimir Már Pétursson skrifar
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs. Vísir/Vilhelm
Kópavogsbær hefur fyrst sveitarfélaga opnað bókhald sitt á vefnum þannig að allir geti kynnt sér hvert peningar íbúanna fara. Bæjarstjórinn segir þetta vera framtíðina í stjórnsýslunni og skorar á önnur bæjarfélög að gera slíkt og hið sama.

Kópavogsbær hefur opnað bókhald bæjarins með aðgengilegri veflausn á vefsíðu bæjarins. Þar er að finna upplýsingar um færslur ársins 2014, 2015 og fyrstu 6 mánuði ársins 2016. Áramann Kr. Ólafsson bærjarstjóri segir að Kópavogsbær sé fyrsti opinberi aðilinn á Íslandi sem opnar bókhald sitt með þessum hætti.

„Kannski er helst markmiðið það að íbúar Kópavogs, skattgreiðendur, geti séð hvert peningarnir eru að fara. Verkefnið heitir: „Hvert fara peningarnir“ og þeir geta núna nákvæmlega séð það.“

Er þetta alveg niður í hefti og bréfaklemmur?

„Þetta er niður á lánadrottna, þá lánadrottna sem Kópavogsbær er í viðskiptum við.“

Þetta muni nýtast bæjarbúum sem og sveitarstjórnarfólki til að veita aðhald í rekstri bæjarins.

„Svo er þetta auðvitað líka gott fyrir stjórnendur bæjarins sem geta veirð að bera sig saman hvernig kostnaður einstakra stofnana skiptist með tilliti til þessa með miklu aðgengilegri hætti en áður. Þetta tekur svo skamman tíma fyrir þá að grúska.“

Ármann telur að önnur sveitarfélög muni feta í fótspor bæjarins.

„Ég held að það muni margir fylgja í kjölfarið og jafnvel að menn taki þetta ennþá lengra. Kannski verður þetta þannig að þú getur séð kvittun fyrir bréfklemmum,“ sagði Ármann Kr. Ólafsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×