Enski boltinn

Kafteinn Morgan skoraði og Leicester komið með sjö stiga forskot | Sjáðu markið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leicester City náði í dag sjö stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar liðið vann 1-0 sigur á Southampton á heimavelli.

Fyrirliðinn Wes Morgan skoraði eina mark leiksins á 38. mínútu þegar hann skallaði fyrirgjöf Christians Fuchs í netið. Þetta var fyrsta mark Morgan á tímabilinu en það má sjá í spilaranum hér að ofan.

Southampton var annars ívið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Sadio Mane fékk dauðafæri eftir um hálftíma leik þegar hann slapp í gegnum vörn Leicester en Danny Simpson bjargaði því að boltinn færi í netið.

Gestirnir sóttu stíft í upphafi seinni hálfleiks en vörn heimamanna hélt. Leicester var svo í tvígang nálægt því að skora en Fraser Forster varði vel í marki Southampton.

Þetta var fjórði 1-0 sigur Leicester í röð og sá fimmti í síðustu sex leikjum.

Leicester er nú með 69 stig í efsta sæti deildarinnar, sjö stigum á undan Tottenham sem gerði 1-1 jafntefli við Liverpool í gær. Bæði Leicester og Tottenham eiga sex leiki eftir.

Southampton er í 7. sæti deildarinnar með 47 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×