Innlent

Vilja aukna fræðslu um kynferðisofbeldi í grunnskólum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Talið er að um 30 þúsund manns hafi tekið þátt í göngunni í fyrra.
Talið er að um 30 þúsund manns hafi tekið þátt í göngunni í fyrra. Vísir/andri marinó
„Ef uppræta á kynferðisofbeldi verður að horfa á rót vandans og sjá til þess að enginn einstaklingur alist upp í íslensku samfélagi án þess að skilja hvað kynferðisofbeldi er og hvenær hann sjálfur er að beita því,“ segir í ákalli forsprakka Druslugöngunnar sem gengin verður frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíg á laugardaginn.

„Á síðustu árum hefur orðið gríðarleg vitundarvakning í samfélaginu um kynferðisofbeldi og afleiðingar þess. Þögnin hefur verið rofin af þúsundum einstaklinga sem varpað hafa ljósi á hversu gríðarlega stórt samfélagsvandamál kynferðisofbeldi er,“ segir í ákallinu.

Segja aðstandendur göngunnar nauðsynlegt að ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir til að sporna við ofbeldinu, en nauðsyn aðgerða verði augljósari með hverju árinu sem líður.

„Það er tímabært að við horfumst í augu við vandamálið og reynum með öllum tiltækum ráðum að uppræta það. Það er á ábyrgð allra að gera það sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir ofbeldið, samfélagið í heild sinni ber ábyrgð.“

Druslugangan kallar eftir markvissri forvarnarfræðslu á öllum skólastigum, fræðslan miði að því að koma í veg fyrir öll þau brot sem hægt er. Tímabundin átaksverkefni séu ekki nóg.

„Ef uppræta á kynferðisofbeldi verður að horfa á rót vandans og sjá til þess að enginn einstaklingur alist upp í íslensku samfélagi án þess að skilja hvað kynferðisofbeldi er og hvenær hann sjálfur er að beita því.“

Vel sé hægt að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi.

„Að ráðast ekki í fyrirbyggjandi aðgerðir er afstaða með samfélagi þöggunar og gerir lítið úr þjáningum allra þeirra sem orðið hafa fyrir ofbeldi sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir.“

Druslugangan verður gengin frá Hallgrímskirkju klukkan 14 á laugardaginn.

 


Tengdar fréttir

Drusluvarningurinn þarf að vera skýr og vandaður

Þær Helga Dögg Ólafsdóttir og Gréta Þorkelsdóttir hönnuðu varninginn fyrir Druslugönguna þetta árið sem gengin verður næstkomandi laugardag frá Hallgrímskirkju. Áhersla göngunnar í ár verður að þrýsta á samfélagið til þess að þrýsta á samfélagið til þess að gera meira í þessum málaflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×