Fótbolti

Endurkoma Kaka í landsliðið var stutt gaman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kaka og Neymar.
Kaka og Neymar. Vísir/Getty
Kaka verður ekki með brasilíska landsliðinu í Ameríkukeppninni en meiðsli urðu til þess að hann þurfti að gefa sætið frá sér.

Kaka hafði komið inn í liðið vegna meiðsla Douglas Costa en forföll hans þýða að Paulo Henrique Ganso kemur inn í hópinn.

Það er vöðvatognun sem sér til þess að þessi 34 ára leikmaður verður ekki með en hann verður frá í þrjár vikur vegna hennar.

Kaka lék áður með AC Milan og Real Madrid á sínum ferli en hefur verið leikmaður Orlando City í bandarísku MLS-deildinni frá 2014.

Kaka spilaði síðasta tímabilið sitt í Evrópu með AC Milan 2013-14 en hafði þá snúið aftur til Ítalíu eftir fjögur tímabil með Real Madrid á Spáni.

Kaka hefur skorað 29 mörk og gefið 25 stoðsendingar í 92 landsleikjum fyrir Brasilíu en hefur aðeins spilað samtals sjö landsleiki frá og með árinu 2013.

Það hefur verið nóg að gera hjá landsliðsþjálfaranum að finna nýja leikmenn eftir að hann valdi hópinn sinn. Kaka er nefnilega fimmti leikmaðurinn sem dregur sig út úr hópnum síðan að hann var valinn.

Ameríkukeppninni er sérstök hundrað ára afmælisútgáfa af keppninni og verður hún öll í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Keppnin hefst með leik Bandaríkjanna og Kólumbíu á föstudaginn en fyrsti leikur Brasilíumanna verður á móti Ekvador á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×