Enski boltinn

Janssen byrjar illa á Englandi: „Ég er fullur sjálfstrausts“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vincent Janssen skorar úr vítinu gegn Liverpool.
Vincent Janssen skorar úr vítinu gegn Liverpool. vísir/getty
Vincent Janssen, framherji Tottenham, segist fullur sjálfstraust þó honum hafi ekkert gengið í fyrstu leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni. Hann er ekki enn þá búinn að skora mark í níu umferðum.

Janssen var keyptur fyrir 20 milljónir evra frá AZ Alkmaar í sumar, en hann raðaði inn mörkum fyrir hollenska liðið á sinni fyrstu leiktíð í úrvalsdeildinni þar í landi. Hann setti í heildina 27 mörk í 34 leikum fyrir AZ í deildinni í fyrra.

Hollendingurinn er búin að byrja þrjá leiki og koma inn á sex sinnum í ensku úrvalsdeildinni án þess að skora. Nú er hann að fá tækifærið í fjarveru Harry Kane en er ekki að nýta það.

Janssen skoraði í gær í deildabikarnum gegn Liverpool úr vítaspyrnu í 2-1 tapleik en hitt markið hans á Englandi kom einnig úr vítaspyrnu og einnig í deildabikarnum.

„Þegar maður er framherji vill maður alltaf skora þannig þegar dómarinn flautaði víti fór ég beint að boltanum og skoraði,“ segir Janssen í viðtali við heimasíðu Tottenham.

„Það skiptir mig engu máli hvar ég tek víti. Þetta er bara víti og maður þarf að skora. Ég er fullur sjálfstrausts. Það skiptir mig engu hvað það er langt síðan ég hef skorað. Ég vildi bara taka vítið, ég gerði það og skoraði,“ segir Vincent Janssen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×