Innlent

Dæmdur fyrir að hlaupa með fangið fullt úr Cintamani-búð í Reykjavík

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn tók í fangið útivistarfatnað samtals að verðmæti 340 þúsund krónur og hljóp með hann úr Cintamani-búðinni án þess að greiða fyrir.
Maðurinn tók í fangið útivistarfatnað samtals að verðmæti 340 þúsund krónur og hljóp með hann úr Cintamani-búðinni án þess að greiða fyrir. Vísir
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fertugsaldri til fjögurra mánaða fangelsisvistar fyrir fíkniefnalagabrot, nytjastuld, gripdeild og umferðarlagabrot. Var hann auk þess sviptur ökuréttindum ævilangt. Hann játaði skýlaust brot sín fyrir dómi sem voru öll framin í fyrra.

Þar á meðal:

Fíkniefnalagabrot, með því að hafa sunnudaginn 4. október á bifreiðastæði Smáratorgs við Dalveg í Kópavogi, haft í vörslum sínum 19,99 g af amfetamíni, sem lögregla fann eftir leit á manninum.

Nytjastuld, með því að hafa fimmtudaginn 10. desember tekið bifreið á bifreiðastæði Umferðarmiðstöðvar BSÍ og ekið um götur höfuðborgarsvæðisins, en lögreglumenn höfðu síðan afskipti af manninum sunnudaginn 13. desember þar sem hann ók bifreiðinni austur Hverfisgötu að Lindargötu.

Umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 13. desember ekið bifreið sviptur ökurétti, undir áhrifum áfengis og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og  slævandi lyfja.

Nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 19. desember tekið bifreið heimildarlaust við Holtsgötu Reykjavík og ekið bifreiðinni sviptur ökurétti að Hringbraut, en lögreglumenn fundu bifreiðina þar skömmu síðar.

Gripdeild, með því að hafa þriðjudaginn 22. desember í verslun Cintamani Reykjavík, tekið í fangið útivistarfatnað samtals að verðmæti kr. 340.920 og hlaupið með fatnaðinn út úr versluninni án þess að greiða fyrir.

Maðurinn átti að baki sakaferil og því þótt fjögurra mánaða fangelsisvist hæfileg refsing. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×