Innlent

Ein umfangsmesta sprengjuæfing sinnar tegundar

Ásgeir Erlendsson skrifar
Ein umfangsmesta sprengjuæfing sinnar tegundar er nú haldin hér á landi á vegum Landhelgisgæslunnar.

Þegar litið var yfir öryggissvæði Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli mátti sjá vel búnar sprengjusveitir frá fjórtán löndum á víð og dreif. Ástæðan er sprengjuæfingin Northern Challenge sem nú er haldin í fimmtánda sinn.

Landhelgisgæslan hefur frá árinu 2001 haft veg og vanda af skipulagningu hennar en alls munu 250 þátttakendur miðla af reynslu sinni næstu tvær vikurnar. Þar eru æfð viðbrögð við hryðjuverkum þar sem heimatilbúnum sprengjum hefur verið komið fyrir.

„Þetta er stærsta æfing þessarar tegundar sem haldin er í heiminum.“ Segir Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður séraðgerða- og sprengjusviðs Landhelgisgæslunnar.

Mikilvæg reynsla og þekking

Markmiðið er ekki einungis að aftengja sprengjur heldur einnig að rannsaka þær og komast að uppruna þeirra.

Reynt er að hafa aðstæður sem raunverulegastar og til að mynda er sérhæfð stjórnstöð virkjuð meðan á æfingunni stendur.

Marvin Ingólfsson, sprengjusérfræðingur, segir æfingu sem þessa sérlega mikilvæga fyrir alla aðila og ekki síst Landhelgisgæsluna.

„Fyrir okkur persónulega hjá gæslunni er þetta mjög mikilvæg reynsla og þekking sem við fáum í gegnum þessa æfingu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×