Innlent

Bæta þarf eftirfylgni við þá sem glíma við andleg veikindi

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Fanný Heimisdóttir missti son sinn sem féll fyrir eigin hendi í mars síðastliðnum, aðeins þrítugur að aldri.

Fanný ákvað að nota reynslu sína til góðs og ætlar að hlaupa tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardag og hefur nú þegar safnað áheitum fyrir rúmlega milljón sem mun renna til Birtu,  landssamtaka foreldra sem misst hafa börn eða ungmenni í skyndilegum dauðdaga. „Hann féll eftir glímu við flókinn geðheilbrigðisvanda,“ segir Fanný.

Hún telur að þurfi að gera sálfræðiþjónustu aðgengilegri og sjálfsagðari. Auk þess þurfi að bæta eftirfylgni hjá þeim sem glíma við andleg veikindi. “Við ættum að gera það að einhverju sem er hefð og venja að fara og tala við sálfræðinga ef okkur líður illa. Og þyrftum að bjóða upp á meira af því inn í skólunum,” segir Fanný.

Fanný segir mikilvægt að há baráttu fyrir þá sem enn lifa og eru í sjálfsvígshugleiðingum. Það þurfi að bæta úrræði fyrir þá sem glíma við andleg veikindi.

“Það var hjartveiki í fjölskyldunni líka, Þar var eftirfylgni. Þar var stoðkerfið kallað til. Þar var boðið á fund til þess að fara yfir hvað aðstandendur ættu að hafa í huga þegar maður býr með hjartasjúklingi en geðheilbrigðiskerfið virðist sko sjálft, finnst mér, búa við fordóma og hreinlega leyndarhyggju.Af því að stoðkerfið er ekki kallað til þegar að sjúklingur glímir til dæmis við sjálfsvígshugsanir.“

Hægt er að heita á Fanný og aðra hlaupara sem hlaupa til góðs hér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×