Innlent

Flytja lögheimili til að komast hjá greiðslu meðlags

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Dæmi eru um að meðlagsgreiðendur komi sér undan greiðslu meðlags með því að flytja lögheimili sitt aftur til fyrri maka, án samþykkis eða vitneskju þess einstaklings. Staðgengill forstjóra Þjóðskrár segir skort á fjármagni koma í veg fyrir að hægt sé að koma í veg fyrir slík tilvik.

Fréttastofa hefur upplýsingar um nokkur tilvik þar sem meðlagsgreiðendur hafa komist hjá því að greiða meðlag. Um er að ræða tilvik þar sem tveir einstaklingar búa saman með barni. Við samvistarslit flytur annar einstaklingurinn út úr íbúðinni og byrjar að greiða meðlag. Í kjölfarið tekur meðlagsgreiðandinn ákvörðun um að flytja lögheimilið sitt aftur á heimilið án samþykkis eða vitneskju þess foreldris sem býr með barninu. Þegar svona ber undir fá stjórnvöld tilkynningu um að þessir tveir einstaklingar hafi tekið aftur saman og falla meðlagsgreiðslur þá niður.

„Ef að það ætti að koma í veg fyrir þetta að þá væri sjálfsagt grundvöllurinn að það væri hægt að skrá fólk niður á íbúðir. Í dag er það ekki mögulegt að skrá fólk niður á íbúðir. Það er náttúrulega verkefni sem að við hjá Þjóðskrá viljum vinna og erum byrjuð að leggja grunninn að en okkur vantar fjármagn til að klára verkið,” segir Sólveig Guðmundsdóttir, staðgengill forstjóra Þjóðskrár Íslands.  

Þjóðskrá hefur óskað eftir frekara fjármagni frá innanríkisráðuneytinu til að ráðast í þetta verkefni sem Sólveig segir virkilega brýnt.

Þetta myndi væntanlega leysa fleiri vandamál?

„Þetta myndi leysa úr og bæta stjórnsýsluna almennt bæði hjá hinu opinbera og sveitarfélögum. Og myndi líka bara verða til þess að menn væru að fá réttari úthlutanir út úr kerfinu,” segir Sólveig.

Og spara fjármuni?

„Maður skildi ætla það að það yrði væntanlega rétt deilt í samfélaginu.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×