Fótbolti

Alfreð fær samkeppni frá West Brom

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Brown Ideye í æfingarleik með WBA.
Brown Ideye í æfingarleik með WBA. Vísir/Getty
Nígerski framherjinn, Brown Ideye, skrifaði í dag undir samning hjá gríska stórveldinu Olympiacos en hann kemur til liðsins frá West Bromwich Albion, aðeins einu ári eftir að enska félagið greiddi fyrir hann tíu milljónir punda.

Ideye sem gekk til liðs við West Brom frá Dynamo Kiev fyrir ári síðan tókst ekki að skora sitt fyrsta mark i ensku úrvalsdeildinni fyrr en um jólin en honum tókst að skora sjö mörk í þrjátíu leikjum.

Hefur hann ekki komið við sögu í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins en ljóst varð að tækifæri hans yrðu af skornum skammti eftir að félagið greiddi 12 milljónir punda fyrir framherjann Salomon Rondon í sumar.

Mun hann koma til með að keppast við Alfreð Finnbogason, landsliðsmann Íslands, um sæti í framlínu Olympiacos en Alfreð var í byrjunarliði gríska stórveldisins í fyrsta leik tímabilsins um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×