Innlent

Þrír í gæsluvarðhaldi vegna greiðslukortasvindls

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alls hafa níu mál sem þessi komið upp frá síðustu áramótum.
Alls hafa níu mál sem þessi komið upp frá síðustu áramótum. Vísir/Anton
Lögreglan á Suðurnesjum hefur frá lokum árs 2014 haft níu mál til meðferðar er varða ætluð fjársvik erlendra manna gagnvart flugfélögum þar sem flugmiðar eru greiddir með stolnum greiðslukortaupplýsingum. Þrír sitja í gæsluvarðhaldi um þessar mundir vegna málsins, einn sætir farbanni, einn hefur þegar hlotið dóm og í fjórum tilfellum hafa málin verið látin niður falla.

Hinir fjórir sem ýmist eru í gæsluvarðhaldi eða sæta farbanni eru grunaðir um fjársvik sem nemur milljónum króna. Máls þess sem er í farbanni verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness á næstu vikum. Sá er ákærður fyrir hylmingu og hafa þannig unnið sér hlutdeild í brotinu. Allir fjórir eru útlendingar og tengsl þeirra við Ísland engin. Málin eru talin ótengd.

Einn mannanna er til viðbótar grunaður um að umfangsmikil fjársvik gagnvart íslenskum verslunum. Í þeim tilfellum voru stolin greiðslukortanúmer notuð til greiðslu á dýrum tölvubúnaði í gegnum vefsíður verslana og varningur sendur á hótel eða gistiheimili í Reykjavík.

Stolin greiðslukortanúmer

Í öllum framangreindum málum hafa stolin greiðslukortanúmer verið notuð og við rannsókn þeirra hefur komið í ljós að auk greiðslukortanúmera liggja fyrir upplýsingar um korthafa, heimilisföng og jafnvel netföng og símanúmer þeirra. Virðast þessar upplýsingar eiga uppruna sinn af sölusíðum á veraldarvefnum sem hafa orðið fyrir barðinu á tölvuþrjótum og ganga svo kaupum og sölum á veraldarvefnum.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að í málunum fjórum sem fellt hefur þurft niður hafi sönnunarstaða ekki verið nógu rík.

Einn mannanna sem sætir gæsluvarðhaldi hefur áður hlotið dóm hér á landi í máli af svipuðum toga. Það var árið 2007 en gæsluvarðhaldsúrskurðinn yfir manninum má lesa hér.

Samstarf við Europol

Til viðbótar við ofangreind mál hefur embættið á Suðurnesjum til skoðunar þrjú hraðbankamál þar sem búnaður til afritunar á greiðslukortum fannst við tollskoðun. Búnaðurinn var handlagður í öllum tilfellum og viðkomandi sendir rakleiðis úr landi.

Frá árinu 2014 hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum tekið virkan þátt í samstarfi Evrópulögreglunnar, Europol, gegn fjársvikum af þessu tagi. Hefur hluti fyrrnefndra mála komið upp á alþjóðlegum aðgerðardögum á þeim vettvangi, sem stýrt er af starfshópi hjá Europol, í samvinnu við löggæslustofnanir, flugfélög og kortafyrirtæki um allan heim.

Á aðgerðardögum sem fram fóru 16. og 17. júní sl. bárust 222 tilkynningar um grunsamlegar kortafærslur og voru 130 manns handteknir á flugvöllum víða um heim, þar af einn hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×