Innlent

Kveikt í skólum í Laugardalnum: „Þetta var hrein og klár íkveikja“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skólahald hefst í Langholtsskóla næstkomandi mánudag.
Skólahald hefst í Langholtsskóla næstkomandi mánudag. Vísir/Anton
Skólahald hefst samkvæmt áætlun í Langholtsskóla á mánudaginn kemur. Kveikt var í nýrri lausri skólastofu á skólalóðinni aðfaranótt þriðjudags. Skemmdir á stofunni og tveimur aðliggjandi stofum urðu nokkrar en þó minni en talið var í fyrstu og er skjótum viðbrögðum slökkviliðs þakkað fyrir það.

Hreiðar Sigtryggsson, skólastjóri Langholtsskóla, segir í samtali við Vísi að eitthvað muni dragast að taka stofurnar þrjár í notkun. Verið sé að gera ráðstafanir til þess að koma börnunum fyrir annars staðar í skólanum fyrstu dagana.

Stofunum var komið fyrir á lóð Langholtsskóla í lok júlí og verið var að ganga frá þeim þegar eldur kom upp í þeim. Hreiðar segir ljóst að um íkveikju var að ræða.

„Þetta var hrein og klár íkveikja,“ segir Hreiðar og bendir því til staðfestingar á að einnig var kveikt í gámi á svæðinu.



Um tveggja kílómetra fjarlægð er á milli Laugalækjarskóla við Laugardalslaugina (efri rauði punkturinn) og Langholtsskóla (neðri rauði punkturinn).Kort/Loftmyndir.is


Tvær íkveikjur í grunnskólum á ellefu dögum


Einnig er talið að um íkveikju hafi verið að ræða þegar kviknaði í Laugalækjarskóla síðla kvölds þann 6. ágúst eða ellefu dögum fyrr. Skólarnir eru báðir í Laugardalnum, hvor á sínum enda, og því um nágrannaskóla að ræða. Því er ljóst að um tvær íkveikjur er að ræða í grunnskólum í Laugardalnum á innan við tveimur vikum.

„Það er spurning hvaða ályktanir maður á að draga af því,“ segir Hreiðar aðspurður og vísar á slökkviliðið varðandi rannsókn málsins.

„Það sem skiptir mestu máli er að við sem borgarar, íbúar í hverfinu sem og annars staðar, stöndum vörð og látum við ef við verðum vör við svona hluti,“ segir skólastjórinn. Það hafi verið tilfellið því einhver hafi gert lögreglu og slökkviliði viðvart.

Uppfært klukkan 14:30

Í fyrri útgáfu fréttarinnar var sagt að skólarnir væru í sama póstnúmeri. Svo er þó ekki. Langholtsskóli er í póstnúmeri 104 og Laugalækjarskóli í póstnúmeri 105.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×