Innlent

Leit ekki út fyrir í upphafi að skartgriparánið yrði upplýst

Gissur Sigurðsson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur upplýst innbrot í skartgripaverslun í verslunarmiðstöðinni Firði í Hafnarfirði í byrjun síðasta mánaðar.

Karlmaður á fertugsaldri viðurkenndi verknaðinn í gær við yfirheyrslur hjá lögreglunni. Um svipað leyti voru gögn farin að berast úr tæknirannsókn lögreglunnar, sem áttu þátt í að knýja fram játninguna. Um er að ræða sama mann og handtekinn var á fyrstu stigum rannsóknarinnar.

Þjófurinn braut sér leið inn í verslunina og hafði með sér úr og skartgripi fyrir tugi milljóna króna. Lögreglan lýsti þá eftir þjófnum með myndum úr eftirlitsmyndavél.

Ennþá eiga eftir að berast gögn úr tæknirannsókn lögreglunnar og eftirgrennslan lögreglunnar erlendis. Málið telst þó upplýst.

Bjarni Ólafur Magnússon, lögreglufulltrúi í Hafnarfirði, segir málið hafa verið afar umfangsmikið og að ekki hafi verið útlit fyrir það við upphaf rannsóknar að takast myndi að upplýsa það.

Verðmæti þess sem stolið var hleypur á milljónum króna, en unnið er að því að endurheimta hina stolnu muni. Talið er að hluti þeirra hafi verið fluttur úr landi.

Bjarni Ólafur segir ekki tímabært að tjá sig um hvort málið sé talið tengjast skipulagðri glæpastarfsemi né hvort málið teygi anga sína út fyrir landsteinana. Hann segir málið hafa verið rannsakað eitt og sér og að nú sé það upplýst.


Tengdar fréttir

Hafði með sér skart fyrir tugi milljóna

Þjófur lét greipar sópa í skartgripaverslun í Firðinum í Hafnarfirði og tók allt gull, flest allt silfur og alla demanta verslunarinnar auk fjölda annarra dýrmætra gripa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×