Innlent

Mannleg mistök að ekki var kveikt á öryggiskerfinu

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Talið er að mannleg mistök hafi valdið því að ekki var kveikt á öryggiskerfinu í verslunarmiðstöðinni Firði þegar verslunin Úr og gull var rænd aðfaranótt sunnudags. Þjófurinn er talinn hafa reynt að ræna aðra verslun en lögreglan er litlu nær um hver var þarna að verki.

Það var klukkan hálf sex aðfaranótt sunnudags sem lögreglu barst tilkynning frá vegfaranda á reiðhjóli sem varð til þess að öryggisvörður mætti á vettvang í verslunarmiðstöðina Fjörður í Hafnarfirði. Hann varð ekki var við neitt athugavert og tók öryggiskerfið af húsnæðinu og yfirgaf svæðið. Klukkutíma síðar lét þjófurinn greipar sópa.

Þjófurinn tók allt það verðmætasta úr versluninni en talið er að andvirði þýfisins hlaupi á milljónum ef ekki tugum milljóna króna.

Nú var ekki kveikt á öryggiskerfinu. Hvers vegna var það?

„Að öllum líkindum eru það bara mannleg mistök. Við fáum þetta símtal klukkan hálf sjö og að öllum líkindum er hann bara í góðri trú og gleymir því,” segir Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri Fjarðarins. Öryggisvörðurinn hafi því gleymt að setja kerfið aftur á.

Þjófurinn þekkti vel til verka

Guðmundur segir tímasetninguna heldur ekki vera neina tilviljun, þetta sé einn af fimm dögum ársins sem enginn er í verslunarmiðstöðinni.

„Hann virðist þekkja vel til verka. Hann vissi hvað hann ætlaði að taka, ásamt því að hann hefur að öllum líkindum þekkt húsið alveg ágætlega af því að hann velur aðra leið til þess að fara út en hann kom inn um,“ segir Guðmundur.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Hafnarfirði hefur enginn verið handtekinn vegna málsins. Lögreglu hafa borist nokkrar ábendingar og þá hefur ein húsleit verið gerð en hún skilaði ekki árangri við rannsókn málsins. Rannsóknarlögreglumaður sem fréttastofa ræddi við sagði raunar að lögreglan væri litlu nær um hver var hér að verki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×