Innlent

Hestamennirnir fundust við Friðmundarvatn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björgunarsveitarmenn náðu símasambandi við mennina í morgun.
Björgunarsveitarmenn náðu símasambandi við mennina í morgun. Vísir/Vilhelm
Hestamennirnir þrír sem björgunarsveitarmenn leituðu að í nótt fundust á níunda tímanum í morgun. Mennirnir fundust vestan við vestara Friðmundarvatn og amaði ekkert að þeim.

Þeir höfðu verið að reka um fimmtíu hross yfir heiðarnar frá Arnarvatnsheiði áleiðis að Áfangafelli þangað sem þeir ætluðu að vera komnir í gærkvöldi. Þegar þeir skiluðu sér ekki hófst leitin um miðnætti.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Blönduósi höfðu mennirnir þrír beðið af sér þokuna og voru í góðu standi þegar þeir fundust. Skömmu áður eða við birtingu hafði náðst símasamband við þá sem auðveldaði leitina en þeir voru nokkuð frá þeirri leið sem lagt var upp með að fara að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörg. Fjórði hestamaðurinn hafði komist í Áfangaskála á Auðkúluheiði í morgun.

Hrossin munu öll vera á sínum stað og verður líklega farið með þau í aðhald og þau hvíld áður en ferðinni verður framhaldið.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×